Alls voru nýskráðir 1965 nýir fólksbílar í júní, samanborið við 1468 bíla í sama mánuði í fyrra. Sala á nýjum fólksbílum jókst því um tæp 34% milli ára, að því er fram kemur í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Samtals hafa 6377 fólksbílar verið skráðir á fyrstu sex mánuðum ársins og er það 31,9% aukning frá fyrra ári. Til samanburðar voru einungis 2020 nýskráðir fólksbílar allt árið 2009.

Í tilkynningunni kemur fram að sala nýrra, sem og notaðra bíla, hafi verið mjög góð það sem af er ári. Bílasölum innan Bílgreinasambandsins vanti nýlega bíla á söluskrá, en það skýrist fyrst og fremst af lítilli sölu nýrra bíla á árunum eftir hrun. Svo eðlileg endurnýjun eigi sér stað á bílaflota landsmanna þurfi að nýskrá á bilinu 12-14 þúsund fólksbila á ári, segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins.