Leikfangaverslunin Hamleys opnaði þrjár verslanir hjá Magasin du Nord 14. október síðastliðinn. Verslanirnar eru í húsnæði fyrirtækisins við Kongens Nytorv, Lyngby og Árósum. Í viðtali Viðskiptablaðsins í dag við Jón Björnsson, forstjóra Magasin, kemur fram að Hamleys leigir verslunarplássið af þeim og eru deildirnar frá 200 fermetrum upp í 500 fermetra. Stærsta verslunin er við Kongens Nytorv.

Að sögn Jóns hefur Magasin selt leikföng í mörg ár en það hefur ekki verið þeirra "styrkleiki" eins og Jón komst að orði. "Markmið okkar er að láta aðra um rekstur deilda sem ekki sé unnt að skilgreina sem kjarnastarfsemi Magasin. Einkum er reynt að fá aðila sem gera hlutina öðruvísi og leggja þannig eitthvað nýtt inn á markaðinn í stað þess að koma inn með sömu merki og sömu verð og aðilar eins og ToysRus og BR," sagði Jón. Hann benti á að ToysRus sé mjög stór söluaðili í Danmörku og nánast allsráðandi. Því sé mjög erfitt og nánast vonlaust að keppa við þá í verði. Því þurfi að gera hlutina með nýjum hætti og taldi Jón að Hamleys ætti að geta gert það en Hamleys býður upp á önnur vörumerki, stóra línu sem byggir á eigin framleiðslu og skemmtilegt og lifandi umhverfi.

Að sögn Jóns er búið að taka ákvarðanir um ýmsar aðrar breytingar og þegar búið að framkvæmda töluvert. Þannig eru komnar inn um 25 nýjar sérvörudeildir eins og Hamleys, þ.e.a.s. vörumerki sem reka sínar deildir sjálf með eigin starfsfólki. "Það eykur þjónustu við viðskiptavinina og gefur meiri dýpt í vörulínu hvers merkis," sagði Jón. Ný 1500 fermetra deild með vörur fyrir ungt fólk hefur verið opnuð í húsinu á Kongens Nytorv með merkjum á við Diesel, Miss Sixty, Topshop, G-Star og, Camper.