Miklar hækkanir hafa verið í Kauphöllinni það sem af er degi og hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 1,12%. Hún stendur nú í 1.653 stigum og hefur ekki verið hærri frá hruni.

Mest viðskipti hafa verið með bréf HB Granda en þau nema 598 milljónum króna. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í hádeginu keypti Lífeyrissjóður verzlunarmanna hlut í fyrirtækinu nú í morgun fyrir rúmlega 520 milljónir króna. Gengi bréfa fyrirtækisins hefur hækkað um 0,86%.

Gengi hlutabréfa Marels hefur hins vegar hækkað mest eða sem nemur 3,54% í 509 milljóna króna veltu. Þá hefur gengi Össurar hækkað um 2,7% í lítilli veltu sem nemur 6 milljónum króna. Gengi bréfa Haga hefur hækkað um 2,09%.