Ísland mun halda lánshæfismati sínu í næstu skýrslu Moody’s að sögn Joan Feldbaum-Vidra, sérfræðings matsfyrirtækisins í málefnum íslenska hagkerfisins. Þetta kom fram í frétt Bloomberg-fréttastofunnar í dag.

Þrátt fyrir að Feldbaum-Vidra telji þó nokkra hættu á harðri lendingu í íslenska hagkerfinu þá segir hún að Moody’s standi við lánshæfismat sitt, en íslenska ríkið fær einkunnina Aaa hjá matsfyrirtækinu sem jafnframt metur horfurnar stöðugar. Bloomberg-fréttastofan hefur eftir henni að ekki sé hætta að lánshæfismatið verði lækkað og bendir á í því samhengi að íslenska hagkerfið sé vant sveiflum og hafi sýnt fram á mikinn sveigjanleika.

Moody’s gefur íslenska hagkerfinu betri einkunn en matsfyrirtækin Fitch og Standard & Poor’s (S&P), en síðarnefnda fyrirtækið breytti mati sínu á horfum hagkerfisins í neikvætt í síðustu viku. Bæði Fitch og S&P gefa íslenska ríkinu einkunnina A+ og rökstyðja hana með því að vísa til mikils viðskiptahalla, skuldastöðu fyrirtækja og heimila, auk hárrar verðbólgu.

Þrátt fyrir bjartsýni fyrir hönd íslenska hagkerfisins telur Feldbaum-Vidra þó nokkra hættu á harðri lendingu. Bloomberg hefur eftir henni að teikn séu á lofti um að ofhitnun eigi sér stað í hagkerfinu og kraftbirtingarform hennar sjáist meðal annars í miklum innflutningi. Hún telur líkur vera á samdrætti í landsframleiðslu sem og neyslu, ásamt lækkunum á eignarverði. Varðandi vaxtastig í landinu segir Feldbaum-Vidra að Seðlabankinn hafi þurft að axla of miklar byrðar í baráttunni við verðbólguna. Krónan hefur fallið um níu prósent gegn evru frá því að bankinn hækkaði stýrivexti í 13,75% og telur Feldbaum-Vidra líkur á því að vaxtahækkunarferli bankans sé ekki lokið. Hún telur jafnframt að hagkerfið reiði sig of mikið á peningamálastefnuna við að koma böndum á verðbólgu.

Ástæða þess að Moody’s hyggst ekki breyta lánshæfismati sínu er tvíþætt: Annars vegar vegna sterkrar stöðu íslensku bankanna og hins vegar sökum fjárlagaafgangs íslenska ríkisins. Í fréttinni er aftur á móti leitt að því líkum að hörð lending muni eiga sér stað í íslenska hagkerfinu árið 2009 og telur Feldbaum-Vidra “mjög líklegt” að spá Seðlabankans um tveggja prósenta hagvaxtarsamdrátt það árið rætist.