Útgáfufélagið Myllusetur hefur samið við Skýrr um heildarlausn í útvistun upplýsingatækni. Um er að ræða miðlæga hýsingu með kerfisleiguhögun á öllu tölvuumhverfi, hugbúnaðarlausnum og gögnum Mylluseturs.

Myllusetur gefur meðal annars út Viðskiptablaðið, Fiskifréttir, Hestablaðið og Íslenska sjómannaalmanakið, ásamt því að reka vefmiðlana vb.is, fiskifrettir.is og hestabladid.is.

Í tilkynningu kemur fram að hýsing kerfanna hjá Skýrr er með þeim hætti að starfsfólk Mylluseturs fær hnökralausan aðgang að eigin vinnuumhverfi, gögnum og hugbúnaði gegnum öfluga gagnatengingu við Skýrr.

Tengingin er við öruggt umhverfi, sem er hýst, afritað og vaktað í tölvusölum Skýrr allan sólarhringinn. Öll tengd þjónusta við tölvukerfi Mylluseturs er innifalin í samningnum, ásamt vildarkjörum í vélbúnaðarkaupum, en Skýrr er meðal annars umboðsaðili Dell á Íslandi.

„Við skoðuðum markaðinn með það fyrir augum að finna hagkvæma og sveigjanlega lausn, sem gerir starfsfólki okkar meðal annars kleift að nálgast gögn sín miðlægt, hvar og hvenær sem er. Jafnframt vildum við útvista upplýsingatækni á heildrænan hátt til öflugs þjónustuaðila. Skýrr hefur langa reynslu af hýsingu og upplýsingatækniþjónustu. Fyrirtækið uppfyllir alþjóðlega gæða- og öryggisstaðla og við teljum okkur í góðum höndum,” segir Sævar Helgason, kerfisstjóri Mylluseturs.

Á myndinni frá vinstri til hægri eru Davíð Þór Kristjánsson hjá Skýrr, Sævar Helgason Myllusetri, Sverrir Heimisson Viðskiptablaðinu og Karl Jóhann Gunnarsson hjá Skýrr.