Tökur fyrir mynd Ridley Scott, Prometheus, skiluðu samtals 740 milljónum króna í erlendum gjaldeyri síðastliðið sumar. Tökudagarnir voru samtals átta en áður hafði undirbúningurinn staðið í 12 vikur. „Þetta er eins og að fá svakalega vítamínsprautu ef þetta er sett í samhengi við íslenskar myndir sem er verið að taka í tvo mánuði og kosta 150 til 200 milljónir,“ segir Leifur Dagfinnsson einn aðaleiganda Truenorth. Hann er í viðtali við Viðskiptablaðið.

Umdeild lokun við Dettifoss

Prometheus var meðal annars tekin upp fyrir norðan, við sjálfan Dettifoss. Aðgangi að fossinum var lokað að hluta til í tvo daga í sumar þar sem kvikmyndataka stóð yfir.Vakti þetta nokkurt umtal hér á landi, hvort hægt væri að útiloka aðra frá fossinum.

Leifur telur að sú lokun eigi eftir að skila sér. Ridley Scott hafi sjálfur sagt honum að loknum tökudegi við Dettifoss að hann hefði náð mögnuðustu tökum sem hann hefði tekið, það hefði verið ótrúlegt. „Þegar svona kvikmyndagerðarmenn eru á ferð ná þeir algjörlega því besta af fossinum og umhverfinu.“

Ítarlegt viðtal er við Leif B. Dagfinnsson í nýjasta Viðskiptablaðinu, sem kom út fyrir jól. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð í slánni hér að ofan.