„Þetta var magnað tímabil að fara í gegnum en ég hefði þó aldrei viljað vera án þess. Þetta voru svo skrýtnir tímar“ segir Elínrós Líndal, listrænn stjórnandi og eigandi fatamerkisins ELLA. Fjölskylda hennar fann fyrir bankahruninu eins og aðrir. Eiginmaður hennar er Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar gamla Landsbankans.

Elínrós er í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið um fatamerkið.

Um uppgjörið við fall bankanna segir hún:

„Mér finnst ótrúlegt hvernig við erum núna að eyða fjármunum í að finna sökudólga í stað þess að finna lausnir. Ég ber mikla virðingu fyrir manninum mínum og því sem hann hefur áorkað. En ég get alveg sagt að ég myndi ekki ýta börnunum mínum út í bankageirann á þeim forsendum sem vinnan var á þessum tíma.“

Börnin eru flóknasta verkefnið

Um lífið utan Ellu segir Elínrós það vart til staðar.

„Ég lifi og anda Ellu,“ segir hún hlæjandi. „Það þarf að biðja mig að hætta að tala um hana. En ég á börnin mín fjögur og þau eru alltaf það dýrmætasta sem ég hef búið til. Ég hlæ líka oft að því hvað við fáum mikla athygli fyrir það sem við erum að gera núna í fyrirtækinu. Mér hefur aldrei þótt ég njóta eins mikillar velgengni eins og þegar ég var heima með börnin mín í fæðingarorlofi. Það sem ég er að fá verðlaun fyrir núna finnst mér ég hafa gert alla mína ævi, bara á öðrum sviðum. Meistaraverkið mitt var að eignast börn og að koma þeim upp er flóknasta verkefni sem til er.“

Ítarlegt viðtal er við Elínrós í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Hlutinn hér að ofan er hins vegar ekki hluti af því. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð.