Af 74 sveitarfélögum leggja einungis níu sveitarfélög ekki á hámarksútsvar árið 2013. Það eru Seltjarnarnes, Garðabær, Grindavíkurbær, Skorradalshreppur, Hvalfjarðarsveit, Tjörneshreppur, Fljótdalshreppur og Ásahreppur. Hin sveitarfélögin leggja á 14,48% útsvar.

Það sem þessi níu sveitarfélög hafa sameiginlegt er að þau hafa flest fremur háar tekjur, deilt á íbúa þeirra, í samanburði við önnur sveitarfélög. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um lækkun á útsvari í Grindavíkurbæ en þar lækkaði útsvarið úr 14,48% í 14,38% um áramótin. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur, sagði að með þessu væri verið að koma til móts við bæjarbúa sem hafa tekið þátt í hagræðingu undanfarin ár. Sjálfur hefur Róbert farið á milli báta í Grindavík, kynnt bæinn og hvatt sjómenn til þess að flytja til Grindavíkur.