Nótt Thorberg hefur verið ráðin forstöðumaður Grænvangs, samstarfsvettvang atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grænvangi. Síðustu fjögur ár hefur hún starfað hjá Icelandair, fyrst sem forstöðumaður viðskiptahollustu á sölu og markaðssviði og síðar sem forstöðumaður vara og viðskiptahollustu. Þar áður starfaði hún hjá Marel, fyrst sem markaðsstjóri og síðar sem framkvæmdastjóri Marel á Íslandi.

Hlutverk Grænvangs er að bæta árangur Íslands í loftslagsmálum og miðla fjölbreyttu framlagi landsins á því sviði, stuðla að framgangi grænna lausna og efla samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs varðandi aðgerðir í loftslagsmálum í samræmi við markmið stjórnvalda.

Formaður stjórnar Grænvangs, Sigurður Hannesson, fagnar tilkomu Nóttar og bæti við „Það eru spennandi tímar í orkumálum á Íslandi og framundan eru áhugaverð og krefjandi verkefni sem munu stuðla að því að við Íslendingar náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í loftslagsmálum. Þau markmið nást ekki nema allir leggist á eitt; stjórnvöld, atvinnulífið og almenningur. Grænvangur er mikilvægur samstarfsvettvangur sem getur leikið stórt hlutverk í þessari sameiginlegu vegferð.“

Þá segir Nótt spennandi vera framundan og að Ísland geti orðið uppspretta hugvits og grænna lausna til framtíðar sem mun bæta heilsu jarðar og stuðla að aukinni hagsæld.

Eggert Benedikt starfaði áður sem forstöðumaður Grænvangs en hann var í vikunni ráðinn í starf leiðtoga á sviði sjálfbærrar þróunar í forsætisráðuneytinu.

Sjá einnig: Eggert Benedikt nýr leiðtogi í forsætisráðuneytinu