Fjárfestingafélagið Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur selt 10,8% hlut í gríska breiðbands- og netfélaginu Forthnet. Eftir söluna á Novator ríflega 10% hlut og hyggst vera áfram leiðandi aðili í hluthafahópnum að því er heimildir Viðskiptablaðsins segja.

Novator á sem stendur 21,01% í Forthnet en átti um tíma 38,65% hlut en minnkaði hlut sinn í janúar síðastliðnum. Almennt er litið svo á meðal fréttaskýrenda að Novator hyggist selja hlutinn með öllu enda hefur það verið stefna félagsins að draga sig út úr fjarskiptum í Austur-Evrópu.

Samkvæmt netsíðu fréttaveitunar Telegeography setti Novator upp verðið 10,5 evrur (14,3 Bandaríkjadalir) á hlut. Það er 8.06% lægra en lokaverð á föstudaginn var að því er kemur fram á netsíðu bandaríska viðskiptatímaritsns Forbes. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvert söluverðið var.

Novator hóf að fjárfesta í Forthnet í september 2005 og þá var markaðsvirði félagsins um 120 milljónir evra eða rúmlega 10 milljarðar króna en nú 18 mánuðum síðar er það í kringum 440 milljónir evra eða tælega 40 milljarðar króna. Verðmæti félagsins hefur því tæplega fjórfaldast á þessum tíma.