Örflöguframleiðandinn Nvidia hefur kynnt nýja gervigreindarörflögu en fyrirtækið segir að vinnsluhraði flögunnar verði um 30 sinnum meiri en hjá forvera hennar. Örflagan, B200 Blackwell, er uppfærð útgáfa af H100-flögunni sem fór á markað í fyrra.

Jensen Huang, forstjóri Nvidia, greindi frá því að Amazon, Google, Microsoft og OpenAI væru meðal viðskiptavina sem viðbúið er að myndu nota flöguna.

Nvidia er með 80% markaðshlutdeild og vonast til að styrkja stöðu sína enn frekar á markaðnum. Fyrirtækið er þar að auki þriðja verðmætasta fyrirtæki Bandaríkjanna, á eftir Microsoft og Apple.

Hlutabréf Nvidia hækkuðu um 240% á síðasta ári og nam markaðsvirði fyrirtækisins 2.000 milljörðum Bandaríkjadala í síðasta mánuði. Nvidia býst við því að tekjurnar verði um 24 milljarðar dala á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

Fyrir einungis níu mánuðum varð Nvidia fyrsti ör­flögu­fram­leiðandinn til að ná markaðs­virði yfir 1.000 milljarða Banda­ríkja­dali. Síðan þá hefur virði fé­lagsins næstum tvö­faldast en miðað við gengi félagsins við lokun markaða í gær nam markaðs­virði um 1.800 milljörðum dala.