Danska fríblaðið Nyhedsavisen, sem er í eigu Baugs, hefur samkvæmt könnun Gallup öðlast 72 þúsund nýja lesendur, segir í frétt netútgáfu danska viðskiptablaðsins Børsen. Þrátt fyrir það á blaðið ennþá langt í land með að ná milljón lesenda markmiði sínu. Fjöldi lesenda blaðsins er nú kominn í 321 þúsund.

"Við erum nokkuð ánægðir með þessar tölur. Það er gott að við séum að bæta við okkur lesendum, sérstaklega þar sem allir aðrir eru að missa lesendur. Það sem við erum að einblína á er að aukningin á lesendum sé stöðug. Okkur vantar 27 þúsund lesendur til viðbótar til að ná sama fjölda lesenda og Berlingske Tidende, og það er til marks um hversu miklar breytingar eru að verða á danska blaðamarkaðinum," segir Morten Nissen Nielsen, forstjóri Nyhedsavisen í samtali við Børsen.

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Gunnar Smári Egilsson, forstjóri Dagsbrúnar Media, útgáfufélags Nyhedsavisen að þetta sé í fyrsta skipti í langan tíma sem Berlingske Tidende sé ekki að tapa lesendum.

"Ætli það sé ekki núna að skilja á milli þeirra fríblaða sem hafa verið stofnuð. Við erum stærri heldur en 24timer ef tekið er mið af Kaupmannahöfn, Árósum og Óðinsvéum, sem er það svæði sem við leggjum höfuðáherslu á og er mikilvægasta markaðssvæðið í Danmörku," segir Gunnar Smári.

"Þó 24timer séu með fleiri lesendur þá eru þeir dreifðir út um alla Danmörku. Okkur vantar ekki nema 30 þúsund lesendur til viðbótar til að verða stærsta blaðið ef þú tekur þessar þrjár stærstu borgir samanlagt, og við reiknum með að á vormánuðum verði skýrari línur í markaðinum. Ég býst við að einhverjir af þessum sem að hafa byrjað með önnur fríblöð fari að gefast upp," segir Gunnar Smári.

"Okkar markmið er að búa til blað sem að þjónar auglýsendum vel og verður kostur númer eitt og þá fyrst og fremst í þessum þremur stærstu borgum. Ég myndi halda að við myndum ná því áður en við náum milljón lesendum."

"Við reiknum með því að í næsta mánuði eða í síðasta lagi þarnæsta verðum við komnir með flesta lesendur í þessum þremur borgum. Ég reikna með því að við verðum komnir með flesta lesendur í Danmörku á endanum, en það er í rauninni ekki okkar meginmarkmið. Allur rekstur og hugsunin snýr að því að búa til eitthvert batterí sem þjónar auglýsendum vel með því að finna þá lesendur sem henta þeim," sagði Gunnar Smári.