Málflutningur fór fram í morgun í máli ákæruvaldsins gegn lögmönnunum Gesti Jónssyni og Ragnari H. Hall. Við dómsuppkvaðningu í svokölluðu al-Thani máli voru þeir Gestur og Ragnar dæmdir til að greiða milljón hvor í réttarfarssekt.

Ástæðan var sú að þeir ákváðu rétt aður en aðalmeðferð í al-Thani málinu átti að hefjast í apríl á síðasta ári að segja sig frá málinu. Það samþykkti dómari ekki en engu að síður mættu lögmennirnir ekki þegar þinghald hófst. Því var málinu frestað fram á haust. Sigríður Frðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði í málflutningi fyrir Hæstarétti í morgun að það væri óásættanlegt að verjendur komist upp með það að gefa dómstólum langt nef með því að mæta ekki til þinghalds.

„Það er með öllu óásættanlegt og andstætt lögum um meðferð sakamála ef verjendur gætu komist upp með það að gefa dómstólum langt nef og mæta ekki þegar er búið að ákveða þinghald því að þeim finnst að það eigi að vera á öðrum tíma þegar dómari er búinn að taka af skarið. Það væri óásættanleg og afleit niðurstaða,“ er haft eftir Sigríði á mbl.is .