Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að framlengja óbreytta reglugerð um sóttvarnaráðstafanir á landamærum til 15. janúar næstkomandi. Í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins segir að ákvörðunin sé í samræmi við tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis. Ástæðan fyrir óbreyttum reglum er sögð mikil fjölgun smita innanlands að undanförnu.

„Sóttvarnalæknir bendir á að faraldurinn sé í töluverðum vexti, þeim fari fjölgandi sem veikjast alvarlega og faraldurinn sé farinn að hafa íþyngjandi áhrif á starfsemi Landspítala. Um 2% þeirra sem greinast með Covid-19 þurfa að leggjast inn á sjúkrahús,“ segir í tilkynningunni.

Ýmsir aðilar úr flug- og ferðaþjónustugeirunum hafa gagnrýnt harðar reglur á landamærunum hér á landi og telja þær meira íþyngjandi en í nágrannalöndum. Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir viku síðan að Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) hafi sent ferðamálaráðherra minnisblað þar sem fram kom að harðari takmarkanir hér en í öðrum Evrópulöndum gæti skilað þjóðinni um 70 til 140 milljörðum króna lægri útflutningstekjum en ella árið 2022.

Samkvæmt núverandi reglugerð þurfa allir farþegar sem hingað koma, íslenskir sem erlendir, að framvísa neikvæðu PCR eða hraðgreiningaprófi við byrðingu erlendis sem ekki má vera eldra en 72 klukkustunda gamalt. Undanþegnir þessar skyldu eru íslenskir ríkisborgarar og þeir sem hafa tengsl við Ísland en þeir þurfa að undirgangast PCR eða hraðgreiningapróf innan tveggja daga eftir komu hingað til lands. Sömuleiðis eru börn fædd 2005 undanþegin að framvísa neikvæðu prófi sem og skipti-/tengifarþegar sem ekki fara út fyrir landamærastöð.

Allir farþegar sem hingað koma og eru ekki með vottorð um að vera full bólusettir gegn COVID-19 eða ekki með vottorð um yfirstaðna sýkingu af völdum COVID-19, verða hins vegar að fara í PCR sýnatöku við komu hingað til lands og fimm daga sóttkví sem lýkur með öðru PCR prófi.