Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað skarpt á mörkuðum það sem af er degi og hefur verð á Brent norðursjávarolíu lækkað um 3,19%, en verð á WTI olíu lækkað um 4,22%, samkvæmt upplýsingum frá Bloomberg. Kostar fatið af Brent olíu nú 58,6 dali. Í frétt Wall Street Journal segir að ástæðan sé sú að búist sé við því að í dag muni nýjar tölur sýna fram á töluverða aukningu olíubirgða í Bandaríkjunum. Gera sérfræðingar, sem Wall Street Journal ræddi við, ráð fyrir að birgðir hafi aukist um 3,7 milljónir fata frá því í síðustu viku.

Undanfarnar vikur hefur olíuverð hækkað nokkuð frá botninum sem náðist um miðjan janúar, en framleiðsla og birgðasöfnun hefur verið að aukast í Bandaríkjunum og bendir það til þess að enn sé töluverð umframframleiðsla sé af olíu.

Bandaríski olíuframleiðandinn EOG Resources lýsti því yfir í dag að til standi að halda framleiðslu í ár óbreyttri frá árinu á undan. Þetta er mikil breyting frá því sem verið hefur, en framleiðsla fyrirtækisins hefur aukist um 50% á ári undanfarin fjögur ár. Ætlar fyrirtækið að minnka útgjöld um 40% í ár.