Úrvalsvísitalan féll um 1,7% í 4,9 milljarða veltu í dag og hefur ekki verið lægri síðan í febrúar 2021. Annan daginn í röð lækkuðu öll félög aðalmarkaðarins í viðskiptum dagsins en hlutabréf 17 af 20 félaga lækkuðu um meira en 1% í dag.

Festi leiddi lækkanir en gengi smásölufyrirtækisins féll um 3,7% og stendur nú í 208 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Festi, móðurfélags Krónunnar, N1 og Elko, hefur ekki verið lægra síðan í september síðastliðnum.

Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem lækkuðu um 1,6% í 880 milljóna veltu. Gengi félagsins stendur nú í 616 krónum á hlut, sem er um 29% lægra en í upphafi árs.

Sjá einnig: Íslandsbanki nálgast óðum útboðsgengið

Næst mesta veltan var með hlutabréf Íslandsbanka eða um 820 milljónir. Gengi bankans endaði daginn í 118 krónum á hlut og er nú einungis 0,9% yfir söluverðinu í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í bankanum þann 22. mars síðastliðinn.

Á First-North markaðnum lækkuðu bréf flugfélagsins Play mest eða um 3,8% í 21 milljónar króna veltu. Gengi Play stendur nú í 20,3 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra frá því í byrjun mars.