*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 16. október 2021 14:05

Olnbogabörn í aflöndum

Viðskiptablaðið ræddi m.a. við einstaklinga sem hafa komið að aflandsfélögum til að fá innsýn í lögmæta notkun þeirra.

Andrea Sigurðardóttir
Frá mótmælum vegna skattaundanskota á Trafalgartorgi í Lundúnum árið 2016.
epa

Augu heimsbyggðarinnar beinast enn á ný að aflandsfélögum í skattaskjólum eða á lágskattasvæðum og einstaklingum og lögaðilum þeim tengdum, eftir að Pandóruskjölin voru opinberuð í byrjun mánaðar.

OECD hefur skilgreint skattaskjól út frá þremur lykilþáttum:

  • Enginn eða mjög lágur tekjuskattur
  • Skortur á skilvirkum upplýsingaskiptum
  • Skortur á gagnsæi

Rétt er að geta þess að ekkert lágskattasvæði telst lengur til skattaskjóla að mati OECD, enda hafa þau öll ráðist í nauðsynlegar úrbætur á upplýsingaskiptum og gagnsæi. Það er nefnilega ekki nóg að skattur sé enginn eða mjög lágur til að svæði teljst skattaskjól.

Þrátt fyrir nefndar úrbætur vekja aflandsfélög síður en svo jákvæð hughrif meðal almennings, enda verður ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að slík félög hafa mikið verið notuð með ólögmætum hætti. Jafnan flýgur það ekki hátt í umræðunni að í mörgum tilfellum býr ekkert annarlegt að baki aflandsfélaga, sem þýðir að lögaðilar og einstaklingar sem tengjast slíkum félögum eru felldir undir sama hatt almenningsálitsins án tillits til reglufylgni.

Ef til vill má rekja það til þess hve mikið og ítarlega hefur verið fjallað um ólögmæta notkun aflandsfélaga, á meðan minna fer fyrir umfjöllun um lögmæta notkun þeirra. Það er ekki nema von að fólk spyrji sig í hvaða tilgangi slík félög eru notuð, ef ætlunin er ekki að leyna upplýsingum og/eða skjóta undan skatti. Til þess að fá innsýn í lögmæta notkun aflandsfélaga á lágskattasvæðum rýndi Viðskiptablaðið í ýmsar skýrslur og skrif, ásamt því að ræða við einstaklinga sem hafa komið að aflandsfélögum með beinum eða óbeinum hætti, hér á landi eða erlendis.

Hagræði í alþjóðaviðskiptum

Innan lágskattasvæðanna hefur sérhæft regluverk um alþjóðleg viðskipti og fjárfestingar þróast í gegnum árin, sem hefur laðað að alþjóðleg tryggingafélög, fjárfestingarsjóði, fyrirtæki í flug- og flutningatengdri starfsemi og fjölmörg skráð félög, svo dæmi séu nefnd.

Á meðal þess sem hefur gert aflandsfélög aðlaðandi er hve einfalt og ódýrt það er að stofna þau og það kostnaðarhagræði sem fylgir færri lagalegum skyldum og minna umstangi, auk þess sem kostnaður, gjöld og tryggingar af ýmsu tagi eru þar hagkvæmari en víða.

Öðru fremur er það þó umgjörð um alþjóðleg viðskipti sem laðar að. Þegar aðilar að viðskiptum deila ekki skattalegri heimilisfesti geta falist ótvíræðir kostir í því að stofna félag um viðskiptin á lágskattasvæðum. Þannig eru engir skattar innheimtir í lögsögu aflandsfélagsins en aðilar að því greiða aftur á móti skatta í því landi sem þeir hafa skattalega heimilisfesti, eftir þeim lögum og reglum sem gilda á hverjum stað.

Með þessu fyrirkomulagi er komið í veg fyrir tvísköttun í millilandaviðskiptum án þess flækjustigs sem tvísköttunarsamningar geta falið í sér, það er ef þeir eru þá yfirleitt til staðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér