Samkeppniseftirlitið hefur til rannsóknar mál sem varðar það hvernig bankarnir tvinna saman mismunandi þjónustu sína sem gerir nýjum og minni keppinautum erfitt að komast inn á markaðinn. Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, í svörum við spurningum almennings á netveitunni Spyr.is .

Fram kemur í svörum Páll Gunnars að Samkeppniseftirlitið hafi vakið athygli á ýmsum öðrum aðgangshindrunum, s.s. skiptikostnaði sem felst í stimpilgjöldum og flækjustigi sem gerir viðskiptavinum erfitt að skipta um banka og beita samkeppnisaðhaldi.

Af svipuðum meiði eru hindranir sem geta stafað af uppgreiðslugjöldum, en kvörtun þess efnis er nú til skoðunar, að sögn Páls Gunnars.