Á hluthafafundi Sýnar, sem fór fram í morgun var kjörin ný fimm manna stjórn. Hákon Stefánsson, framkvæmdastjóri InfoCapital, fjárfestingarfélags Reynis Grétarssonar, og Rannveg Eir Einarsdóttir, eigandi byggingarfyrirtækisins Reirs Verks, koma ný inn í stjórnina. Þetta kemur fram í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar.

Að loknum hluthafafundi fór fram stjórnarfundur þar sem ákveðið var að Jón Skaftason skyldi starfa sem formaður stjórnar og Rannveig sem varaformaður.

Ljóst er að meirihluti stjórnarmanna hjá Sýn eru nú á vegum einkafjárfesta sem hafa komið inn í hluthafahópinn eða bætt verulega við hlut sinn í félaginu á síðustu mánuðum.

Stjórn Sýnar skipa nú:

  • Jón Skaftason, stjórnarformaður
  • Rannveig Eir Einarsdóttir, varaformaður
  • Hákon Stefánsson,
  • Páll Gíslason
  • Sesselía Birgisdóttir

Í varastjórn voru kjörin:

  • Daði Kristjánsson
  • Salóme Guðmundsdóttir

Hákon og Rannveig koma inn í stjórnina fyrir Petreu I. Guðmundsdóttir, sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs, og Jóhann Hjartarson, sem var varaformaður stjórnar.

Um var að ræða annað stjórnarkjörið sem fer fram hjá Sýn innan tveggja mánaða. Í lok ágúst fór fram hluthafafundur með stjórnarkjöri að beiðni fjárfestingarfélagsins Gavia Invest, sem varð stærsti hluthafi félagsins í júlí eftir að hafa keypt allan hlut Heiðars Guðjónssonar, fyrrum forstjóra Sýnar.

Jón Skaptason, forsvarsmaður Gavia, náði kjöri í stjórnina á fundinum í ágúst. Reynir Grétarsson, stofnandi Creditinfo og stærsti hluthafi Gavia, náði hins vegar ekki kjöri. Reynir gaf ekki kost á sér fyrir stjórnarkjörið í dag en Hákon Stefánsson, sem starfaði með honum hjá Creditinfo og gegnir stöðu framkvæmdastjóra InfoCapital, fjárfestingarfélags Reynis, náði kjöri í dag.

Rannveig Eir Einarsdóttir og eiginmaður hennar Hilmar Þór Kristinsson, eigendur Reirs, eignuðust 7,7% hlut í Sýn í sumar eftir að hafa keypt hlut Róberts Wessman í fjarskiptafélaginu. Hilmar Þór bauð sig fram til stjórnar Sýnar á hluthafafundinum í lok ágúst en náði ekki kjöri.

Auk þeirra sem náðu kjöri höfðu þau Jóhann Hjartarson, Helen Neely og Sigmar Páll Jónsson gefið kost á sér til stjórnarsetu hjá Sýn fyrir fundinn í dag.