Bankahópurinn sem Royal Bank of Scotland (RBS) fer fyrir afhjúpaði í gær formlegt tilboð sitt í ABN Amro, en þess hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Tilboðið hljóðar upp á 71,1 milljarð evra og verður 79% þeirrar upphæðar greitt í peningum, sem er töluvert hærra heldur en búist hafði verið við. Afgangurinn mun hins vegar verða greiddur með nýjum hlutabréfum í RBS sem gefin verða út, en auk skoska bankans samanstendur hópurinn af Fortis og Santander. Hið 71,1 milljarða evra tilboð bankanna skiptist þannig að RBS þarf að borga 38,3% upphæðarinnar (27,2 milljarða), Fortis 33,8% (24 milljarða) og Santander (19,9 milljarða).

Í tilkynningu sem bankarnir sendu frá sér í gær kemur fram að hópurinn búist við því að yfirtökuferlið geti hafist ekki síðar en 13. ágúst næstkomandi og vonast er til þess að þá verði hægt að ljúka yfirtökunni einhvern tíma á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Ef yfirtakan verður að veruleika þá telja bankarnir að hún muni spara þeim árlega 4,23 milljarða evra fyrir árið 2010, en kostnaðurinn við sjálfa yfirtökina er áætlaður 6,81 milljarður evra.

Fjármögnun yfirtökunnar er tryggð
RBS-hópurinn hefur undanfarinn mánuð verið í harðri baráttu við breska bankann Barclays um yfirráð í ABN Amro, en með þessu nýjasta útspili sínu telja bankarnir að þeir hafi náð yfirhöndinni. Yfirtökutilboð RBS-hópsins er 13,7% hærra heldur en hið vinveitta 63 milljarða evra tilboð Barclays í ABN þann 23. apríl síðastliðinn, sem stjórnendur hollenska bankans samþykktu. Í því samkomulagi var hins vegar einnig gert ráð fyrir því að bandaríski bankinn LaSalle, sem ABN er eigandi að, yrði seldur til Bank of America (BofA) fyrir 21 milljarð evra. Hluthafar ABN snérust aftur á móti gegn því tilboði og tókst að fá hollenskan dómstól til að úrskurða um að fresta bæri sölunni á LaSalle þangað til að samþykki hluthafa ABN Amro lægi fyrir.

Bankarnir þrír segja að yfirtökutilboðið sé lagt fram með þeim fyrirvara að hluthafar ABN muni greiða atkvæði gegn sölunni á LaSalle til BofA. Jafnframt kemur fram í tilboði hópsins sem greint var frá í gær að bankarnir ætli að halda eftir um fimm milljörðum evra vegna hugsanlegra skaðabóta til BofA sem hópurinn þyrfti að inna af hendi í tengslum við þá deilu sem stendur um söluna á LaSalle. Hins vegar eru ekki sett fram nein sérstök skilyrði um hvernig fjármögnun RBS-hópsins verður háttað, heldur segjast bankarnir vera búnir að ábyrgjast það fjármagn sem til þarf svo að yfirtakan geti gengið eftir. Þessi trygging kemur í kjölfar þeirra getgáta sem uppi hafa verið - einkum á meðal stjórnenda ABN - um að RBS-hópnum myndi ekki takast að fjármagna yfirtökuna. Slíkar vangaveltur hafa núna verið slegnar út af borðinu.

Sterk staða RBS-hópsins gagnvart Barclays
Hópurinn hefur einnig útlistað nákvæmlega hvernig hann hyggst endurskipuleggja allan rekstur ABN Amro. Í frétt Financial Times í gær kemur fram að RBS muni taka að sér leiðandi hlutverk í því samhengi ef gengið verður að tilboði bankanna og auk þess taka ábyrgð á því að allar þær breytingar verði í samræmi við lög og reglur. Áform RBS-hópsins gera ráð fyrir því að RBS muni yfirtaka bandaríska bankann LaSalle og efla starfsemina í Bandaríkjunum og Asíu; Fortis yrði stærstur í smásölubankastarfsemi og lífeyristryggingum í Benelux löndunum; en Santander fengi hins vegar að yfirtaka þá starfsemi sem ABN er með í Brasilíu og Ítalíu.

Í samtali við Dow Jones fréttastofuna í gær segir sérfræðingurinn Gert-Jaap Kraan hjá hollenska bankanum Theodoor Gilissen, að tilboð RBS-hópsins sé framúrskarandi gott fyrir hluthafa ABN Amro - sérstaklega í ljósi þess að hlutfall peninga í tilboðinu sé töluvert hærra heldur en reiknað hafði verið með. Undir þetta tekur einnig Simon Willis, sérfræðingur hjá NBC Stockbrokers, sem segir jafnframt að í kjölfarið sé RBS-hópurinn kominn í mjög sterka stöðu gagnvart Barclays um að ná yfirráðum í ABN. Willis bendir sömuleiðis á það að sökum þess að RBS segist hafa átt í viðræðum við stjórnendur BofA undanfarin misseri um söluna á LaSalle, sé það sterk vísbending um að hópurinn muni hugsanlega ná samkomulagi við bandaríska bankann á næstunni. Ef sú spá Willis gengur eftir mun það auka verulega líkurnar á því að RBS-hópnum takist að sigra Barclays í baráttunni um yfirráð í ABN Amro.