*

laugardagur, 29. janúar 2022
Innlent 11. september 2017 20:46

Grunaður um hálfs milljarðs fjárdrátt

Talið er að Magnús Garðarsson, stofnandi United Silicon, hafi dregið að sér ríflega hálfan milljarð króna, jafnvel allt frá stofnun félagsins. Farið er yfir ævintýralega sögu fyrirtækisins.

Pétur Gunnarsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Talið er að Magnús Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon, hafi dregið að sér rúman hálfan milljarð króna, jafnvel frá stofnun félagsins. Frá þessu er greint bæði í frétt Ríkisútvarpsins, og í frétt Kjarnans. Líkt og greint var frá fyrr í dag, hefur stjórn United Silicon ákveðið að senda kæru til Embættis héraðssaksóknara um mögulega refsiverða háttsemi Magnúsar. Kæran byggir á grun um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals allt frá árinu 2014.

Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að tilhæfulausir reikningar hafi verið gefnir út og greiddir í góðri trú af fulltrúum United Silicon. Þessir reikningar skiluðu sér þó aldrei í réttar hendur að sögn talsmannsins. 

Félagið í greiðslustöðvun

Þann 14. ágúst var tilkynnt um það að héraðsdómur Reykjaness hafi veitt stjórn United Silicon heimild til greiðslustöðvunar sem miðaði að því að ná bindandi nauðasamningum við lánardrottna og endurskipuleggja reksturinn. Þá var tekið fram að ástæðan væru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík – sem rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið hafa miklu tjóni. 

United Silicon var veitt greiðslustöðvun í þrjá mánuði – eða þar til 4. desember – til að stjórnendur kísilmálmverksmiðjunnar gætu reynt að koma rekstri verksmiðjunnar á réttan kjöl. Helstu kröfuhafar United Silicon eru meðal annars Arion banki, Íslenskir aðalverktakar (ÍAV), Landsvirkjun, og fyrrnefnt fyrirtæki – Tenova – sem seldi United Silicon ljósbogaofninn. Arion banki hefur meðal annars lánað félaginu 8 milljarða króna og einnig eiga ÍAV inni einn milljarð króna hjá fyrirtækinu samkvæmt uppkveðnum gerðardómi – líkt og áður hefur verið sagt frá. Fyrirtækið skuldar Reykjanesbæ enn fremur 162 milljónir króna. 

Háleit markmið

Þann 24. ágúst 2014 var fyrsta skóflustungan að nýrri kísilmálmverskmiðju United Silicon í Helguvík á Suðurnesjum tekin við hátíðlega athöfn. Þá var áætlað að framleiðsla kæmi til með að hefjast á vormánuðum 2016 – sem gekk svo ekki eftir – og að framleiðslan myndi nema 21.300 tonnum á ári. „ Stefnt er að því að reisa alls fjóra ofna í verksmiðjunni ef næg orka fæst til þess og þá verður verksmiðjan stærsta kísilverksmiðja í heimi. Heildarfjárfestingin, miðað við fjóra ofna í rekstri, er um 35 milljarðar króna.  Fjármögnun verkefnisins er samvinna danskra og hollenskra fjárfesta frá Fondel Group, en lánsfjármögnun verkefnisins og ráðgjöf er í höndum Arion banka,“ sagði fréttatilkynningu frá fyrirtækinu árið 2014. Þar var enn fremur tekið fram að gert var ráð fyrir því að kísilmálmverksmiðjan yrði sú stærsta í heimi.Landsvirkjun hafði gert raforkusamning við United Silicon í mars 2014. Gert var ráð fyrir að verksmiðjan kæmi til með að nota 35 MW af afli. 

Í september var sagt frá því að United Silicon hafi samið við alþjóðlega fyrirtækið Tenova Pyromet um byggingu og uppsetningu 32 megavatta ljósbogaofni fyrir kísilmálmverksmiðjuna – var ofninn fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Í febrúar 2015 kom fram að United Silicon hafði þegar samið um sölu á 85% af framleiðslu fyrirtækisins, og að alls verði framleidd 21.900 tonn af kísilmáli í fyrsta áfanga verksmiðjunnar.

Fyrsti áfanginn í byggingu kísilmálmverksmiðjunnar lauk í ágúst í fyrra. Aðal verksmiðjuhúsið er 38 metra hátt og um 5.000 fermetrar að stærð. „ Í ofnhúsinu er 32 megavatta ljósbogaofn, sem félagið hefur gefið nafnið Ísabella. Ofninn framleiðir kísilmálminn við 1900 gráðu hita við efnabreytingu af kvartsgrjóti. Í fyrsta áfanga verða framleidd 22.900 tonn í ofninum. United Silcion hefur fengið starfsleyfi fyrir alls fjórum ofnum og er verksmiðjan hönnuð með þessa stækkun í huga. Miðað við fjóra ofna verður framleiðslugetan um 90.000 tonn á ári og verður verksmiðjan þá stærsta kísilverksmiðja í heimi. Kostnaðurinn við fyrsta áfanga verksmiðjunnar var um 12 milljarðar króna en fullbyggð mun hún kosta um 40 milljarða króna,“ kom fram þegar ofninn var gangsettur. 

Mengun og verksmiðjan stöðvuð

Þann 23. ágúst síðastliðinn ákvað Umhverfisstofnun að stöðva rekstur United Silicon.Þá höfðu komið upp fjölmörg vandamál frá upphafi rekstrar kisilmálmversins, þá sér í lagi hvað varðar vegna ónægra mengunarvarna – þau vandamál hafa ekki enn verið leyst. Verulegur fjöldi kvartana hafði borist til Umhverfisstofnunar, en í því samhengi voru kvartanir vegna ólyktar algengastar – en í hluta af þeim var jafnframt lýst ýmsum líkamlegum einkennum samfara ólyktinni. United Silicon er óheimilt að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá Umhverfisstofnun – að loknu fullnægjandi endurbótum og íarlegu mai á þeim. 

Í tilkynningu frá stjórn United Silicon – sem barst þann 6. september síðastliðinn – kom fram að stjórnin ynni hörðum höndum að endurskipulagningu rekstrar félagsins í samvinnu við ofangreinda kröfuhafa.  Þar segir að fjárhagserfiðleikar félagsins séu fyrst og fremst afleiðing rekstrarerfiðleika í verksmiðju félagsins sem rekja má til endurtekinna bilana í búnaði sem hefur valdið félaginu miklu tjóni. Einnig er tekið fram að á greiðslustöðvunartíma verður unnið að frekari greiningum á tæknilegum úrlausnarefnum, áætlunum um úrbætur og nauðsynlegum endurbótum. Einnig kom fram í tilkynningunni að ákvörðun UST kalli á enn frekari greiningu á mögulegum úrbótum. Norska verkfræðiráðgjafastofan Multiconcult hefur unnið með félaginu frá því síðasta vor og mun halda áfram að vera lykilráðgjafi félagsins í endurbótaferli næstu mánaða.