Riftunarkröfu skiptastjóra þrotabús Milestone var vísað frá hjá Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Um eitt mál er að ræða sem inniheldur kröfu um riftun fjölda viðskipta frá í júlí 2007 og fram í mars 2009.

Niðurstaðan getur haft áhrif á fjölda annarra riftunarmála skiptastjóra þrotabúsins, þar á meðal riftun á um fimm milljarða króna greiðslu frá Milestone til Ingunar Wernersdóttur þegar hún seldi bræðrum sínum, þeim Karli og Steingrími Wernerssonum, hlut sinn í félaginu. Skiptastjóri taldi greiðsluna til Ingunnar geta verið brot á lögum um einkahlutafélög. Úrskurður héraðsdóms gæti haft fordæmi fyrir fjölda riftunarmála.

Frestir þrotabúa til að höfða riftunarmál er eitt ár fyrir venjulegt þrotabú en tvö ár fyrir fjármálafyrirtæki. Í apríl í fyrra var frestur fjármálafyrirtækja framlengdur um sex mánuði til viðbótar.

Í úrskurðinum í morgun kemur fram að héraðsdómur telji lagabreytinguna frá í fyrravor aðeins gilda um þau þrotabú sem tekin voru til gjaldþrotaskipta eftir að breytingin gekk í gegn.

Þetta gæti haft þau áhrif að öll eða nær öll riftunarmál þrotabús Milestone verði vísað frá dómi. Það sama gæti átt við riftunarmál annarra þrotabúa sem á eftir að taka fyrir hjá dóminum.

Málið mun að öllum líkindum næst fara á borð Hæstaréttar og eru líkur á að niðurstaðan þar muni skapa dómafordæmi í sambærilegum riftunarmálum þrotabúa.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur