Um 400 Íslendingar eru nú í sóttkví vegna kórónuveirunnar Covid-19, og búast má við að sú tala hækki umtalsvert áður en yfir er staðið, með tilheyrandi afleiðingum fyrir atvinnulífið. Þótt horfur þjóðarbúskaparins hafi versnað nokkuð síðan veiran tók hér land, er þó enn útlit fyrir að efnahagsáhrifin verði hófleg heilt á litið.

Leggst þungt á einstakar greinar og lítil fyrirtæki
Annað kann hins vegar að gilda um einstakar atvinnugreinar og fyrirtæki, sér í lagi lítil og meðalstór, sem veiran leggst misþungt á, og þola misvel að missa starfsfólk og/eða viðskiptavini svo vikum eða mánuðum skiptir. Mest verða áhrifin vafalaust í ferðaþjónustunni, sem þegar átti um sárt að binda eftir fall Wow air og fækkun ferðamanna.

Magnús Árni Skúlason, hagfræðingur hjá hugveitunni Reykjavík Economics, segir ljóst að eigi ekki illa að fara muni ríkið að öllum líkindum þurfa að bregðast við. „Ef fólk er veikt til langs tíma og þarf að taka veikindadaga er spurning hvort ríkið horfir til þess að gefa eftir eða fresta greiðslu tryggingagjalds, annarra launatengdra gjalda, og jafnvel skatta, eða í það minnsta afnema tímabundið viðurlög við töfum á slíkum greiðslum.“

Seðlabankinn boðar aðgerðir
Haft var eftir Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra á miðvikudag að gripið yrði til aðgerða til að sporna við efnahagsáhrifum veirunnar. Frekari stýrivaxtalækkanir voru sagðar líklegar, auk þess að þegar hafi verið undirbúnar aðgerðir til að tryggja lausafjárstöðu fjármálakerfisins.

Ekki kom fram í hverju þær aðgerðir munu felast, en Magnús segir Seðlabankann hafa ýmis tæki til þess. „Hann getur dregið úr lausa- og eiginfjárkröfum á bankana. Svo er hins vegar spurning hvort bankar vilja yfirhöfuð lána, hvort sem þeir hafa til þess svigrúm eða ekki. Vilji þeir það ekki er lítið við því að gera. Þá gæti ríkið þurft að grípa til sinna ráða og tryggja lausafjárstöðu kerfisins með því að fresta skattheimtu, greiða reikninga fyrr og fara jafnvel að huga að því að flýta fjárfestingum til að koma hagkerfinu í gang.“

Fordæmið sé til staðar: í hruninu hafi verið gripið til ýmissa aðgerða til að tryggja viðgang lífvænlegra fyrirtækja. Það sé þó lykilatriði að þetta sé gert tímanlega. „Það þarf að gera þetta strax, ekki þegar fyrirtækin eru komin í greiðsluerfiðleika.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .