Ástæða er til þess að skoða hvort rétt sé að stuðningslán til lítilla fyrirtækja séu veitt í gegnum efnahagsreikning ríkissjóðs í stað efnahagsreikning lánastofnanna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) um frumvarp um viðbrögð vegna kórónaveirufaraldursins.

Frumvarpið var meðal þess sem var að finna í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Stuðningslánin fela í sér allt að 6 milljón króna lánagreiðslu til lítilla fyrirtækja með veltu undir hálfum milljarði króna. Lánin eru ábyrgð af ríkinu og er gert ráð fyrir því að þau beri vexti sem samsvara innlánsvöxtum Seðlabankans fyrir lánastofnanir.

Sjá einnig: Lánastofnunum fært opinbert vald

„Þeir vextir eru 0,75% lægri en vextir á 7 daga veðlánum sem lánastofnunum standa til boða til að fjármagna þessi lán. Vaxtamunur þessara lána er því neikvæður um 0,75%. Lánakjör stuðningslánna verða að minnsta kosti að samsvara vöxtum á veðlánum Seðlabanka til lánastofnanna að viðbættum bankaskatti,“ segir í umsögninni. Standi vilji til þess að hafa vexti undir markaðskjörum verði endurfjármögnun Seðlabankans að vera í takt við það.

Í umsögninni er einnig bent á það að lánastofnanir séu í raun umsýsluaðilar við lánveitinguna og sé einnig ætlað að aðstoða við úrvinnslu umsókna. Það hlutverk gæti vel verið í höndum Skattsins líkt og með lokunarstyrkina. Óháð því hvort stuðningslánin endi á efnahagsreikningi lánastofnana eður ei gæti Skatturinn annast mat á rétti til þeirra.

Örfyrirtæki fæst í viðskiptum við „lánastofnun“

„Ekkert er fjallað um kostnað vegna innheimtu lánanna séu þau á efnahagsreikningi lánastofnana. Þar sem lánin eru að fullu með ábyrgð ríkis hlýtur ríkissjóður að bera þann hluta innheimtukostnaðar sem ekki innheimtist hjá lánþega. Tryggja þarf lánastofnunum fullt skaðleysi af innheimtu lánanna og taka fram að við innheimtu lánanna verði farið eftir reglum og ferlum hverrar lánastofnunar,“ segir SFF.

Samtökin telja einnig rétt að fyrirtækjum standi til boða málsskotsleið í þeim tilfellum sem lánastofnun kemst að þeirri niðurstöðu að þau uppfylli ekki skilyrði fyrir lánveitingu. Skilyrðin kveða einnig á um bann við arðgreiðslum og að þau eigi eingöngu að nýta til að standa undir rekstraraðila. Telur SFF að ríkisábyrgð eigi ekki að falla niður komi það í ljós að lánþegi hafi farið á svig við skilyrðin.

„Frumvarpið gerir ráð fyrir að „lánastofnun“ veiti stuðningslánið. Óljóst er á hvaða forsendum ákvörðun mun byggja um hvaða lánastofnun skuli afgreiða umsóknir einstakra lántaka. Mörg minni fyrirtækja eru í litlum lánaviðskiptum við lánastofnanir. Óljóst er því hvaða lánastofnun ætti að taka að sér veitingu stuðningslánsins í hverju tilviki,“ segir í umsögninni.

Enn fremur er lagt til að líftími ríkisábyrgðar verði lengri en mánuðurnir þrjátíu sem frumvarpið kveður á um. Ekki er gert ráð fyrir því að lánin verið innheimt fyrstu átján mánuðina og segir SFF að það gæti verið erfitt í framkvæmd.

„Mögulegt væri að stytta innheimtutímann með því að mæla fyrir um það í lögum hversu langt þurfi að ganga í innheimtuaðgerðum áður en heimilt er að innleysa ábyrgð ríkissjóðs, t.d. að árangurslaust fjárnám sé nægilegt til að virkja ábyrgð ríkissjóðs. Einnig væri mögulegt að mæla fyrir um í lögunum að lánastofnun verði heimilt að lenga niðurgreiðsluferlið í allt að sex ár án þess að ríkisábyrgð falli niður.“