400 ríkustu einstaklingar heims urðu samtals 19 milljörðum fátækari á árinu 2015 samkvæmt milljarðamæringa-vísitölu Bloomberg .

Helstu orsakavaldar að mati fréttaveitunnar er lækkandi hrávöruverð og hægari vöxtur í Kína. Þetta er í fyrsta skipti sem samanlagður auður þeirra dregst saman síðan vísitala Bloomberg var fyrst tekin saman árið 2012.

Mexíkóski milljarðamæringurinn Carlos Slim var sá sem tapaði mest á árinu. Viðskiptablaðið greindi áður frá því að eignir hans lækkuðu um 20 milljarða Bandaríkjadala, eða um 2.592 milljarða króna.

Eignir hans eru nú metnar á um 52,8 milljarða dala og hafa lækkað um 38% á árinu. Hann er engu að síður enn fimmti ríkasti maður í heiminum en hann var í þriðja sæti fyrr á árinu.