Róbert Wessman er orðinn meðal stærstu hluthafa í Sýn. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Róbert kaupir í Sýn í gegnum félagið Frostaskjól ehf.

Frostaskjól kaupir hlutinn af Res II, sem er í eigu Sigurðar Bollasonar og Nönnu Ásgrímsdóttur.

Frostaskjól er til helminga í eigu félaganna Reir ehf og Aztiq Fjárfestingar ehf. Reir er í eigu viðskiptafélaganna Hilmars Þórs Kristinssonar og Hollendingsins Bernhard Jakob Strickler. Aztiq fjárfestingar eru skráð í eigu Aztiq Investment Advisory AB í Svíþjóð. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að Róbert Wessman forstjóri Alvogen hafi yfirráð yfir félaginu.

Sja einnig: Selja fyrir 560 milljónir í Heimavöllum

Í tilkynningunni segir að Frostaskjól hafi keypt 21,15 milljónir hluta en Róbert Wessman hafi fyrir átt 2,5 milljónir hluta í Sýn í gegnum framvirka samninga. Eftir viðskiptin eigi þeir því samtals 7,64% hlut í Sýn.

Frostaskjól seldi í gær hluti í Heimavöllum fyrir um 600 milljónir króna en hluturinn í Sýn er einnig um 600 milljóna króna virði. Ekki kom fram hver kaupandinn var.