Nýjasta verðbólgumæling Hagstofunnar hlýtur að koma Seðlabankanum verulega á óvart. Hjöðnun verðbólgu er mun hraðari en hann virðist hafa  gert ráð fyrir og það hlýtur að leiða til þess að stýrivextir verði endurskoðaðir fyrr en áformað var.

Þetta kemur fram í nýrri ályktun Samtaka atvinnulífsins (SA) sem birt er á vef samtakanna í dag.

Þar kemur fram að aðstæður hér innanlands séu þannig að eftirspurn eftir vöru og þjónustu hefur dregist mikið saman og kostnaður fyrirtækja lækkað vegna lækkunar launakostnaðar og annarra aðhaldsaðgerða. Gengi krónunnar er tiltölulega stöðugt í sínum haftafjötrum miðað við það sem á undan er gengið.

„Erlendis ríkir djúp efnahagslægð, nánast engin verðbólga en hætta á verðhjöðnun,“ segir í ályktun SA.

„Það er því útlit fyrir hægar breytingar á vísitölu neysluverðs á komandi mánuðum sem þýðir að 12 mánaða verðbólgan verður líklega komin í eins stafs tölu í júní næstkomandi og verðstöðugleiki kominn á þegar litið er til skemmri tímabila.“

Sjá nánar á vef SA.