Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing stendur nú frammi fyrir nýjum ásökunum eftir að uppljóstrari tilkynnti bandarískum eftirlitsstofnunum um öryggisáhyggjur.

Samkvæmt fréttamiðlinum BBC mun verkfræðingurinn Sam Salehpour hafa sakað Boeing um að hafa farið flýtileiðir við framleiðslu á 787 og 777 farþegaþotum sínum. Hann hélt því fram að honum hafi verið hótað uppsögn eftir að hafa sagt yfirmönnum sínum frá þessum áhyggjum.

Boeing segir hins vegar að fullyrðingarnar væru ekki réttar og bætti við að fyrirtækið væri fullvisst um öryggi flugvélanna.

„Málin sem komu fram hafa verið háð ströngu eftirliti frá flugmálayfirvöldum. Þessi greining staðfestir að þessi mál fela ekki í sér neinar öryggisáhyggjur og eru flugvélarnar með nokkurra áratuga langan endingartíma,“ segir Boeing.

Hlutabréf Boeing hafa lækkað um tæp 2% frá því í gær eftir að flugmálayfirvöld tilkynntu að verið væri að rannsaka málið. Boeing tilkynnti jafnframt að það hefði aðeins afhent 83 flugvélar á fyrstu þremur mánuðum ársins en fyrirtækið hefur ekki afhent færri vélar síðan 2021.