Viðskipti voru stöðvuð með hlutabréf spænsku bankanna Santander og Banesto í spænsku kauphöllinni í dag. Reuters-fréttastofan segir Santander hafa tilkynnt í morgun, að stjórnendur bankans væru að íhuga yfirtöku á smærri banka.

Santander, sem er einn af umsvifamestu bönkum heims og sá stærsti á evrusvæðinu, á tæpan 90% hlut í Banesto. Þrátt fyrir töluverðan stærðarmun á alþjóðlegan mælikvarða er Banesto fimmti stærsti banki Spánar.

Orðrómurvar á kreiki um það í sumar að Santander væri ýmist að skoða það að taka yfir Banesto eða selja hlut sinn í bankanum. Stjórnendur Santander á Spáni vísuðu öllu slíku aftur til föðurhúsanna.