Í augum flestra er kampavín munaðarvara og þar af leiðandi eitt það fyrsta sem heimili, sem á annað borð hafa haft efni á að kaupa slíka vöru, skera við nögl þegar harðnar í ári. Að sama skapi glæðist salan að nýju þegar heimilin sjá fram á betri og bjartari tíma, að sögn greiningardeildar Arion banka.

Bent er á það í Markaðspunktum deildarinnar að sala á kampavíni dróst hressilega saman á milli áranna 2007 og 2010 eða um 70% og var salan með dræmasta móti árið 2010. Síðan þá hefur sala á kampavíni, jafnt dýrt sem og ódýrt kampavín, aukist.

Greiningardeildin segir að þótt áhugavert sé að skoða sölu á kampavíni og setja það í samræmi efnahagsþróun þá verði að hafa  í huga að kampavínssala er ekki fullkominn mælikvarði á framtíðar ráðstöfunartekjur. Á því geti verið ýmsar skýringar. Í fyrsta lagi er tiltölulega lítið keypt af kampavíni hér á landi, um 7.600 flöskur árið 2013, og því geti verið nokkuð hjákátlegt að áætla að þessar fáu flöskur gefi hugmynd um ráðstöfunartekjur 124 þúsund heimila. Í öðru lagi er kampavínssalan ekki alltaf tengd þáttum sem hafa áhrif á ráðstöfunartekjur, til að mynda fjárfesta margir í kampavíni á áramótum eða í afmælum, hvort sem von sé á auknum tekjum eður ei. Í þriðja lagi er alls kostar óvíst að fólk velji endilega kampavín til að fagna.