Samherji mun selja eignarhlut sinn í næst stærsta sjávarútvegsfélagi Noregs á um 19 til 22 milljarða íslenskra króna samkvæmt verðbili útboðs félagsins sem kynnt var í gær.

Norsku félögin Nergård og Norsk Sjømat tilkynntu fyrr í október að þau hygðust sameinast og um leið skrá félagið á markað í norsku kauphöllinni líkt og Viðskiptablaðið greindi frá. Með sameiningunni verður til næst stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Noregs. Samherji á 39,9% hlut í Nergård sem félagið ætlar að selja samhliða skráningunni.

Sjá einnig: Samherji selur allt í Nergård

Í tilkynningunni um skráninguna sem birt var í gær kemur þó fram að endanlegt gegni bréfa í útboðinu kunni að verða bæði hærra eða lægra en það verðbil sem þegar hefur verið kynnt. Gert er ráð fyrir að niðurstaða útboðsins liggi fyrir í kringum 23. október og stefnt er að því að viðskipti hefjist með bréf félagsins í norsku kauphöllinni þann 27. október næstkomandi.

Samherji varð fyrst hluthafi í Nergård árið 2014 þegar það eignaðist 22% hlut. Þremur árum síðar jók Samherji hlutdeild sína í 39,9% og átti Norsk Sjømat hinn hluta rekstursins. Erlendum aðilum er óheimilt að eiga meira en 40% í norskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Í kjölfar sameiningar Nergård og Norsk Sjømat myndi hlutur Samherja vera 29% og félög tengd Bjarte Tunold og Per Magne Grøndahl myndu verða um 71%. Eftir útboðið mun Samherji hins vegar hafa selt allan hlut sinn í félaginu og þeir Tunold og Grøndahl eiga um 54% hlut, bæði vegna sölu hluta í útboðinu og vegna útgáfu nýrra hluta.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja sagði sig úr stjórn Nergård líkt og annarra erlendra félaga í eigu Samherja fyrir að verða ári síðan, eftir umfjöllun Kveiks um starfsemi Samherja í Namibíu.