Kristrún Mjöll Frostadóttir, hagfræðingur hjá Arion banka, segir að arðsemi í sjávarútvegi hafi aukist mikið eftir tilkomu kvótakerfisins.

Þetta kom fram á fjölmennum fundi sem Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) hélt um framtíð sjávarútvegsins í Valhöll í gærkvöldi. Frummælendur voru auk Kristrúnar, alþingismennirnir Ólína Þorvarðardóttir og Illugi Gunnarsson. Fundarstjóri var Davíð Þorláksson, formaður SUS.

Í tilkynningu frá SUS er haft eftir Kristrúnu að næði frumvarp sjávarútvegsráðherra fram að ganga myndi það skapa mikla óvissu sem myndi hafa slæm áhrif á rekstur í greininni. Óvissa væri sérstaklega slæm í sjávarútvegi þar sem rekstur útvegsfyrirtækja þarfnaðist mikilla fjárfestinga.

„Hún sagði að sjávarútvegurinn ætti að vera sú grein sem ættu að vera að fjárfesta nú, en boðaðar breytingar á kvótakerfinu myndu torvelda það mjög. Kristrún sagði að breytingarnar myndu hafa verst áhrif á meðalstór fyrirtæki sem væru mörg lífvænleg í dag,“ segir í tilkynningunni.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að sjávarútvegurinn myndi skapa þjóðfélaginu mestar tekjur ef nýtingarrétturinn væri í séreign. Hann vitnaði í John Lock og sagði að hugmyndafræði hægrimanna byggði á því að þeir sem legðu vinnu í auðlind eignuðust hana þar með. Þetta væri grunnur auðsköpunar í okkar samfélagi.

Illugi sagði jafnframt að hugmyndir jafnaðarmanna byggðu hinsvegar á því að ríkið ætti allar auðlindir og leigðu þær svo öðrum. Hann sagði að þetta myndi tryggja ríkinu ægivald í efnahagsmálum, einkum þar sem samfélög byggja líf sitt á auðlindanýtingu. Þá sagði Illugi  að strandveiðar myndu ekki fjölga fiskum í sjónum og því ekki skapa meiri tekjur. Slíkar veiðar myndu fjölga bátum sem veiða og draga þannig úr hagkvæmi.