Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa æðstu stjórnendur Kaupþings aldrei selt eitt einasta bréf í bankanum sem þeir fengu kauprétt að.

Þessi bréf eru nú verðlaus en stjórnendur og starfsmenn hafa aftur á móti greitt af þeim skatta og gjöld þannig að ljóst er að þeir ríða ekki feitum hesti vegna nýtingar kaupréttarsamninga.

Innan Kaupþings var litið svo á að með veitingu kaupréttar til starfsmanna væri bankinn að spara sér ákveðinn hluta af launakostnaði enda væru kaupréttir og lán vegna þeirra hluti af launakjörum starfsmanna.

Við lánveitingar voru almennar reglur bankans virtar að öðru leyti en því að í kjölfar samþykktar stjórnar haustið 2005 var gert ráð fyrir að starfsmenn gætu tekið þátt í slíkum kaupum án þess að uppfylla skilyrði um tryggingarþekju.