*

föstudagur, 16. apríl 2021
Innlent 6. maí 2017 16:02

Semja við stórfyrirtækið Regus

„Það má líkja þessu við það að reka Gistiheimilið á Baldursgötu en setja síðan Hilton skiltið á húsið," segir eigandi Orange Project.

Trausti Hafliðason
Tómas Hilmar Ragnarz framkvæmdastjóri.
Haraldur Guðjónsson

Orange Project var stofnað fyrir tæpum þremur árum síðan þegar skrifstofuhótel var opnað í Ármúla  í Reykjavík. Fyrirtækið hefur vaxið þónokkuð því nú hafa bæst við tvö skrifstofuhótel í Reykjavík og eitt á Akureyri. Samtals er fyrirtækið með 155 skrifstofur, 14 fundarherbergi og stóra setustofu (e. business lounge) á þessum stöðum.

Þó talað sé um skrifstofuhótel er ekki um eiginlegt hótel að ræða heldur leigir Orange Project út skrifstofurými og fundarsali, sem einyrkjar eða fyrirtæki geta leigt í lengri eða skemmri tíma.

Tómas Hilmar Ragnarz og eiginkona hans Fríða Rún Þórðardóttir eiga fyrirtækið. Tómas Hilmar, sem er framkvæmdastjóri, segir að fram að þessu hafi reksturinn gengið framar björtustu vonum.

„Í byrjun trúðu fáir að við gætum veitt þá þjónustu sem við vorum að auglýsa en það hefur breyst," segir Tómas Hilmar. „Við höfum skilað hagnaði þau ár sem við höfum verið í rekstri og erum nánast skuldlaust félag í dag, Allt sem við gerum er gert fyrir eigið fé. Við byrjuðum á einni hæð í Ármúla 6 sumarið 2014. Í nóvember það sama ár vorum við komin með eina hæð í viðbót og skömmu seinna þá þriðju þannig að fyrirtækið óx strax mjög hratt. Starfsemin var á um 500 fermetrum í byrjun en í dag erum við með hana á 6 til 8.000 fermetrum."

Eins og áður sagði er fyrirtækið með starfsemi á fjórum stöðum í dag en breyting verður á því í haust. „Þá munum við opna í Hlíðasmára í Kópavogi. Eftir það verðum við með samtals 220 skrifstofurými og 16 fundarherbergi."

Risafyrirtæki

Orange Project er ekki bara að opna nýtt skrifstofuhótel í Hlíðasmára því í mars var skrifað undir samning sem gjörbreytir allri starfsemi fyrirtækisins. Þá var gerður sérleyfissamningur við alþjóðlega fyrirtækið Regus, sem er með starfsemi í 120 löndum. Regus er stærsta fyrirtæki heims á sínu sviði með 8.400 starfsmenn og skráð í Kauphöllina í London.

Regus var stofnað í Belgíu árið 1989 en í dag er fyrirtækið með 3.000 starfsstöðvar í 900 borgum. Auk þess rekur Regus setustofur á 800 flugvöllum. Í heildina er Regus með um þrjár milljónir viðskiptavina í og nýta mörg stórfyrirtæki sér þjónustuna. Má til dæmis nefna að Google er með 70 starfsstöðvar hjá Regus víða um heim en einnig eru fyrirtæki eins og Apple, Disney og Samsung á meðal viðskiptavina Regus.

Mjög stórt skref

„Þessi samningur sem við erum búin að gera við Regus er mjög stórt skref fyrir okkur enda er þetta stærsta skrifstofuhótel í heiminum," segir Tómas Hilmar. „Hann þýðir að nú erum við komin inn á alþjóðamarkað og getum leigt skrifstofur úti um allan heim. Það má líkja þessu við það að reka Gistiheimilið á Baldursgötu en setja síðan Hilton skiltið á húsið. Það breytast allar forsendur fyrir rekstrinum. Nú verða allt í einu 3.500 manns að selja okkar vöru.

Í dag hafa okkar viðskiptavinir að sjálfsögðu aðgang að öllum okkar starfsstöðvum á Íslandi en þessi samningur þýðir að nú munu þeir fá aðgang að öllum starfsstöðvum Regus án þess að þurfa að borga aukalega fyrir. Að sama skapi fá erlendir viðskiptavinir Regus, einstaklingar og fyrirtæki, aðgang að aðstöðu okkar hér heima.

Google og Apple

Af 500 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna eru 64% með samning við Regus. Stórfyrirtæki, eins og til dæmis Google og Apple, sækjast oft eftir hæfu starfsfólki í fjarlægum löndum og liður í því hefur verið að setja upp skrifstofur hjá Regus fjarri sínum höfuðstöðvum. Með þessu móti hafa þau með auðveldum hætti getað laðið til sín fólk alls staðar í heiminum. Það Regus sé nú komið til Íslands getur því skipt miklu máli fyrir atvinnumöguleika Íslendinga, sem og þekkingarsamfélagið hér heima."

Grænland og Færeyjar

Orange Project samdi ekki einungis við Regus um sérleyfi á Íslandi heldur einnig Grænlandi og í Færeyjum.

„Vægi þessari þriggja norðurslóðaríkja er sífellt að aukast í alþjóðlegu samhengi. Það er lítið framboð af skrifstofuhúsnæði á Grænlandi en við erum þegar byrjuð að þreifa fyrir okkur þar. Ég geri ráð fyrir því að í lok næsta árs eða byrjun árs 2019 verðum við búin að opna skrifstofuhótel bæði á Grænlandi og í Færeyjum."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.