*

miðvikudagur, 20. janúar 2021
Erlent 25. júlí 2018 11:06

Sergio Marchionne látinn

Sergio Marchionne, framkvæmdastjóri Fiat til 14 ára, sem snéri við taprekstri og gerði það að þeim risa sem það er í dag, er látinn.

Ritstjórn
Sergio Marchionne lést á spítala í Zurich í morgun.

Sergio Marchionne, framkvæmdastjóri Fiat til 14 ára, lést í morgun, 66 ára að aldri. Hann hafði farið í aðgerð á öxl fyrir nokkrum vikum, en á laugardag komu upp vandkvæði og hann neyddist til að segja af sér.

Mike Manley, framkvæmdastjóri Jeep tók við, og í kjölfarið sagði Alfredo Altavilla – yfirmaður Fiat Chrysler í Evrópu, sem hafði haft augastað á framkvæmdastjórastarfinu – af sér.

Marchionne hafði ætlað sér að hætta á næsta ári, en hann tók við Fiat árið 2004, sem var þá rekið með tapi. Hann snéri því þó fljótt við, og árið 2009 sameinaðist Fiat þriðja stærsta bílaframleiðanda Bandaríkjanna, Chrysler, og varð Fiat Chrysler.

Árið 2011 var traktor-framleiðsluhluti samstæðunnar færður í sjálfstætt félag, sem fékk nafnið CNH Industrial, og árið 2016 var Ferrari fært út úr samstæðunni og skráð á markað.

Í ár hafði Marchionne tekist að greiða upp 13 milljarð dollara, næstum 1400 milljarð króna, skuldabagga fyrirtækisins.

Meðal hinna ýmsu starfa sem Marchionne gegndi áður en hann hóf störf hjá Fiat var hann forstjóri Alusuisse-Lonza samsteypunnar, sem átti ÍSAL, rekstraraðila Álversins í Straumsvík, þegar það var stækkað árið 1997.