*

sunnudagur, 7. mars 2021
Innlent 19. janúar 2021 09:22

Setja Iceland Travel á ný á sölu

Icelandair Group undirbýr sölu Iceland Travel á ný. Ákveðið að selja ferðaskrifstofuna í ársbyrjun 2019 en síðan frestað.

Ritstjórn
Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair.
Eva Björk Ægisdóttir

Icelandair Group hefur ákveðið að hefja söluferli á dótturfélagi sínu, Iceland Travel, á ný. Viðskiptablaðið sagði frá í nóvember 2019 að fyrri áformum frá upphafi ársins um sölu ferðaskrifstofunnar hefði verið slegið á frest. Um sumarið sama ár bauðst starfsfólki félagsins að fara í launalaust leyfi eða að draga úr vinnu með haustinu.

Ákvörðunin nú er sögð í tilkynningu vera í takt við stefnu Icelandair Group um að leggja höfuðáherslu á kjarnastarfsemi félagsins, flugrekstur. Markmiðið í söluferlinu verði að hámarka virði fyrirtækisins og á sama tíma tryggja hagsmuni starfsfólks og íslenskrar ferðaþjónustu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í sumar að Icelandair hefði fengið 116 milljónir í greiðslur á uppsagnarfresti 82 starfsmanna Iceland Travel. Í tilkynningunni segir jafnframt að Iceland Travel sé rótgróið ferðaþjónustufyrirtæki, sem sé leiðandi í þjónustu til ferðamanna hér á landi. Íslandsbanki mun veita Icelandair Group ráðgjöf og hafa umsjón með söluferlinu.

„Sala Iceland Travel er í takt við stefnu Icelandair Group að leggja höfuðáherslu á kjarnastarfsemi okkar, flugrekstur,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

„Iceland Travel hefur verið leiðandi á sínu sviði í áratugi og mun halda áfram að sinna því hlutverki um leið og aðstæður batna og eftirspurn eftir ferðalögum á milli landa eykst á ný. Það er ljóst að í kjölfar heimsfaraldursins verða tækifæri til hagræðingar í íslenskri ferðaþjónustu og ég tel að þar geti Iceland Travel, sem býður heildstæða þjónustu til ferðamanna, verið í lykilhlutverki.”