"Þetta verður ljót kosningabarátta. Andstæðingar okkar, bæði til hægri og vinstri, virðast ekki sjá aðra leið en að ráðast á Framsókn og það ekki á málefnalegum grundvelli. ... Framsóknarmenn munu ekki taka þátt í þannig kosningabaráttu," sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins meðal annars á fundi Framsóknar á Grand Hótel fyrr í dag.

Sigmundur Davíð sagði einnig að hætta væri á „verðtryggingarríkisstjórn“ Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

"Miðað við málflutning annarra flokka er komin upp augljós hætta á því að hér muni skapast verðtryggingarríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Ríkisstjórn sem mun standa vörð um verðtrygginguna og lítur sem svo á að íslensk heimili eigi ekki inni leiðréttingu eftir hrunið.

Ríkisstjórn sem er tilbúin að beygja sig undir kröfur erlendra kröfuhafa en er ekki tilbúin að standa með íslenskum heimilum. Ég trúi því ekki að Íslendingar vilji þannig ríkisstjórn, ég trúi því að Íslendingar vilji ríkisstjórn sem þorir," sagði Sigmundur Davíð.