Forsvarsmenn Domino's í Bretlandi sjá fram á að hægt verði að opna níu nýja Domino's staði á Íslandi. Nýverið var gengið frá samkomulagi um að Dominos í Bretlandi (Domino´s Pizza Group), sem í dag á 49% hlut í hinu íslenska Dominos, muni í framtíðinni eignast hluti íslensku keðjunnar í Skandinavíu. Þar að auki mun breska félagið eignast  2% auka hlut í íslenska félaginu hér á landi og verður þar af leiðandi ráðandi 51% hluthafi. Frá þessu greindi Viðskiptablaðið fyrst frá.

Í fjárfestakynningu Domino's er að finna umfjöllun um starfsemi félagsins á Íslandi, þar sem segir að 12,4% söluvöxtur var á síðastliðnu ári, miðað við bráðabirgðartölur. Einn nýr Domino's staður opnaði hér á landi í fyrra. Þar er enn fremur tekið fram að á þessu ári sé stefnt að því að opna fleiri útibú pítsukeðjunnar á Íslandi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem koma fram í fjárfestakynningunni er markaðstækifæri fyrir alls 30 Dominos staði á Íslandi.