*

miðvikudagur, 11. desember 2019
Fólk 3. júlí 2019 16:59

Sjö vilja verða þjóðleikhússtjóri

Núverandi þjóðleikhússtjóri, útvarpsstjóri og leikstjóri Borgarleikhússins eru meðal umsækjenda.

Ritstjórn
MBL - Golli

Alls bárust sjö umsóknir um starf þjóðleikhússtjóra en umsóknarfrestur rann út um mánaðarmótin. Núverandi þjóðleikhússjóri, Ari Matthíasson, er meðal umsækjenda um starfið. 

Sagt hafði verið frá nokkrum umsóknum í vikunni. Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, tilkynnti starfsfólki RÚV það í vikunni að hann hefði sótt um starfið. Eftir að umsókn hans var kunngjörð tilkynntu Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússin, og Kolbrún Halldórsdóttir, leikstjóri og fyrrverandi þingmaður, að þau hefðu einnig sótt um. 

Þá hafði hávær orðrómur verið uppi um að Brynhildur Guðjónsdóttir, leikari og leikstjóri, hefði hug á því að sækja um starfið. Sá orðrómur var staðfestur í dag er umsóknir voru gerðar opinberar á vef stjórnarráðsins.

Talsverður styr hefur staðið milli leikara og núverandi þjóðleikhússtjóra, fyrrgreinds Ara, og fjallað um málið í fjölmiðlum. Þrátt fyrir þær erjur er Ari meðal umsækjenda. Aðrir umsækjendur eru Guðbjörg Gústafsdóttir, en starfstitill hennar er ekki tilgreindur, og Stefán Sturla Sigurjónsson, verkefnastjóri, leikari og rithöfundur. 

Nýr þjóðleikhússtjóri, eða sá sami, verður skipaður frá og með 1. janúar 2020.