Vaxtakostnaður ríkisins í ár er mun minni en áður var gert ráð fyrir. Það breytir því þó ekki að hann mun fara hækkandi næstu ár ef fer sem horfir.

Áætluð vaxtagjöld ríkisins verða um 75 milljarðar króna samkvæmt fjárlögum næsta árs. Það er töluverð lækkun frá fjárlögum þessa árs þegar áætluð vaxtagjöld námu um 94,3 milljörðum króna. Endurmat fyrir árið 2010 bendir þó til að vaxtagjöld verði um 74 milljarðar króna í ár.

Þannig lækka vaxtagjöldin um rúma 20 milljarða strax í ár sé miðað við endurmatið og upphafleg fjárlög þessa árs.

Fjármálaráðuneytið útskyìrir þá lækkun með fernum hætti. Í fyrsta lagi lækki áætlaður vaxtakostnaður ríkisverðbréfa vegna þess að vaxtakjör í útboðum ríkisskuldabréfa hafi reynst lægri en reiknað var með fyrir þrátt fyrir fyrirsjáanlega mikla útgáfu. Í öðru lagi verði nú minna tekið af lánafyrirgreiðslu nágrannaþjóða og í þriðja lagi hafi skuldabréf, sem ríkissjóður gaf út til Seðlabankans í árslok 2008 til að styrkja eiginfjárstöðu bankans, lækkað um 134 milljarða króna í árslok 2009 með kaupum Seðlabankans á kröfum sem ríkissjóður yfirtók í árslok 2008.

Þá kemur einnig fram í fjárlögum næsta árs að auk fyrrgreindra atriða hafi vaxtastig reynst lægra en áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir, sem lækkar m.a. áætlaðan vaxtakostnað vegna endurfjármögnunar banka.

Nánar er fjallað um málið nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins . Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .