*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Innlent 23. júlí 2019 14:26

SKE segir Inter fara með rangt mál

SKE segir að þeir hafi þurft ítrekað að ganga á eftir upplýsingum frá Inter vegna rannsóknar stofnunarinnar.

Ritstjórn
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið segir að þeir hafi þurft ítrekað að ganga á eftir upplýsingum frá Inter, samtökum fyrirtækja sem veita internetþjónustu, vegna rannsóknar stofnunarinnar á kvörtunum samtakanna vegna Símans. Þetta kemur fram í frétt á vef Samkeppniseftirlitsins.

Viðskiptablaðið fjallaði um í síðustu viku um kvartanir Inter samtakana gegn Símanum. Í þeirri umfjöllun lýsti Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Snerpu, því að samskiptin við Samkeppniseftirlitið væru súrrealísk og sagði meðal annars að samtökin hefðu ekkert heyrt frá Samkeppniseftirlitinu síðan í apríl.

Við vinnslu fréttarinnar sem birtist í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn síðastliðinn var haft samband við Pál Gunnar Pálsson, forstjóra Samkeppniseftirlitsins og staðfesti hann að SKE hefði til skoðunar kvartanir vegna Símans en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Í fréttinni á vef Samkeppniseftirlitsins segir að fullyrðingar Björns séu ekki sannleikanum samkvæmar.

„Kvörtun sú sem gerð er að umtalsefni í fréttinni barst Samkeppniseftirlitinu í febrúar 2018. Í framhaldinu var kvörtunin tekin til skoðunar og leitað upplýsinga og sjónarmiða vegna hennar. Í byrjun maí 2018 var aðilum kynnt það frummat Samkeppniseftirlitsins að ekki væru nægar forsendur til að ætla að umrædd háttsemi Símans færi í bága við samkeppnislög. Var aðilum boðið að tjá sig um það frummat," segir í fréttinni.

Jafnframt segir að í apríl síðastliðnum hafi Inter verið boðið að koma frekari sjónarmiðum og upplýsingum á framfæri en þær upplýsingar hafi aftur á móti ekki borist fyrr en þann 18. júní síðastliðinn og segir að SKE hafi ítrekað þurft að ganga á eftir þeim upplýsingum. 

„Rétt er jafnframt að vekja athygli á að aðilum máls er jafnan heimilt, telji þeir ástæðu til, að kæra drátt á afgreiðslu máls til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Aðildarfyrirtæki Inter hafa ekki nýtt sér þennan rétt sinn í málinu."