Þeir sem stýra Evrópska seðlabankanum standa frammi fyrir sambærilegu vandamáli og Gullbrá gerði forðum: Þeir þurfa að finna út hvaða stýrivextir eru mátulegir fyrir þau ólíku hagkerfi sem standa að evrusvæðinu.

Við þetta bætist svo að forráðamenn seðlabankans þurfa, ólíkt Gullbrá, að taka tillit til undirliggjandi verðbólguþrýsting en verðbólga hefur ekki mælst meiri á evrusvæðinu í sextán ár.

Lánsfjárkreppan sem hófst í fyrra þegar markaðurinn með fjármálagjörninga í undirmálslánum hrundi, hefur ekki orðið til þess að fá forráðamenn Evrópska seðlabankans til þess að hvika frá nánast ástríðufullri skuldbindingu sinni við 2% verðbólgumarkið peningamálastefnu bankans.

Á sama tíma bendir allt til þess að lánsfjárkreppan muni hafa ólík áhrif á hagkerfi evrusvæðisins og það sama gildir um áhrif fyrirsjáanlegs samdráttarskeiðs í Bandaríkjunum á raunhagkerfi meginlandsins.

Merki um þetta eru nú þegar komin fram. Þrátt fyrir að eitthvað kunni að draga úr hagvexti í Þýskalandi bendir allt til þess að enn sé góður kraftur í atvinnulífi þessa stærsta hagkerfi evrusvæðisins og það sama gildir um ríki á borð við Holland. Hins vegar er nú þegar farið að kreppa að í Miðjarðarhafshagkerfunum.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í  sérblaði í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .