Gjaldþrotaskiptum á félaginu FS 14 ehf., áður Íshlutir ehf. hefur verið lokið, en alls voru gerðar kröfur í þrotabúið fyrir 1,7 milljarða íslenskra króna. Greiddust um 157 milljónir upp í kröfurnar, eða tæplega 17% upp í samþykktar veðkröfur sem námu um 934 milljónum króna.

Félagið, sem seldi og sá um þjónustu við vinnuvélar hér innanlands ásamt því að flytja út vinnuvélar á ný, var stofnað árið 1998 en var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2010.

Samkvæmt ársreikningi félagsins frá árinu 2008 tapaði félagið 1,1 milljarði króna, en það ár helmingaðist sala félagsins, úr 4,7 milljörðum í 2 milljarða. Félagið var í eigu Hjálmars Helgasonar og var það skráð á Voluteigi í Mosfellsbæ. Hjálmar hafði keypt félagið af Gunnari Björnssyni og Pétri Ingasyni.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma hafði móðurfélag Íshluta, HIG ehf. ætlað sér að kaupa allt hlutafé Ræsis, en það félag sá um að þjónusta viðgerðir og selja varahluti í Mercedes-Benz bifreiðar, sem og fasteignir. Síðar hætti félagið þó við kaupin vegna þess að skuldir Ræsis reyndust meiri en hafði verið áætlað.

Sama ár hafnaði kærunefnd útboðsmála kröfu Vélaborgar ehf. um að samningur Ríkiskaupa við Íshluti um sölu á dráttarvél og traktorsgröfu fyrir Flugmálastjórn Keflavíkurflugvallar yrði rift.