Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur ákveðið að skipa þriggja manna hóp til að leggja mat á það hvaða takmarkanir komi helst til greina til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Frá þessu er greint á vefsíðu Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins .

„Nokkur umræða hefur verið í þjóðfélaginu um árabil varðandi kaup erlendra aðila á bújörðum hér á landi. Dæmi eru um það að sami aðili hafi keypt margar jarðir á stóru svæði án þess að þar sé fyrirhuguð búseta eða að ræktanlegt land sé nýtt,“ segir meðal annars í fréttinni.

Hópnum er ætlað að kanna hvernig haldið er á spöðunum í nágrannalöndum okkar og þær takmarkanir sem er að finna í löggjöf í löndum á borð við Noreg, Danmörku og Möltu sem rúmast innan marka EES-samninginn.

„Í dönsku jarðalögunum er m.a. eignarhald á landbúnaðarlandi takmarkað og skilyrði sett fyrir kaupum erlendra ríkisborgara.  Þá mun hópurinn gera tillögu til ráðherra um nauðsynlegar breytingar á lögum í samræmi við framangreint,“ er einnig tekið fram.

Hópurinn verður skipaður þremur fulltrúum. Einn verður skipaður af innanríkisráðherra, einum tilnefndum af Bændasamtökum Íslands og formaður hópsins verður skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra án tilnefningar. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en í júní 2017.

Umdeild kaup bresks athafnamanns

Nýverið festi breski athafnar- og milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe, kaup á meirihlutanum á jörð Grímsstaða á fjöllum. Samkvæmt honum er markmiðið að vernda laxveiðiár á Norðausturlandi.

Um er að ræða lóðina sem kínverski fjárfestirinn Huang Nubo vildi kaupa á rúman milljarð, en ekkert varð úr þeim viðskiptum. Jörðin var auglýst fyrir 780 milljónir króna og er það líklegast verðið sem fengist hefur fyrir hana.

Ögmundur Jónasson sagði meðal annars sölu Grímsstaða á fjöllum órækan vitnisburður um vesaldóm íslenskra stjórnvalda .