*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 2. nóvember 2019 13:09

„Skriffinnskan orðin svakaleg“

Stjórnarformaður MótX segir aukna skriffinnsku og seinagang innan stjórnkerfisins hafa valdið hægari framleiðni.

Sveinn Ólafur Melsted
Vignir Steinþór Halldórsson, stjórnarformaður MótX, var aðeins sextán ára gamall þegar hann ákvað að verða smiður.
Eyþór Árnason

Vignir Steinþór Halldórsson, stjórnarformaður byggingarfélagsins MótX, hefur starfað innan byggingageirans frá unga aldri. Hann segist hafa áttað sig á því strax á unglingsaldri að hann vildi starfa innan þess geira.

„Ég fór beint eftir grunnskóla í Fjölbrautaskólann í Breiðholti til þess að læra smíði og það er mjög eftirminnilegt hvað vinum mínum þótti það merkilegt að ég skyldi strax vera búinn að ákveða það sextán ára gamall að verða smiður. Mér þótti það mjög spennandi tilhugsun að vera úti allt árið að berja steypumót og það var engin ógn fyrir mig að ákveða strax svo ungur hvað ég ætlaði að verða. Ég tel það hafa verið heillaspor að hafa fundið hvað mig langaði til að gera svo snemma. Ég minnist þess að hafa bara unnið tvenns konar vinnu um ævina sem ekki tengjast smíði og það voru sumarstörf sem ég vann áður en ég varð sextán ára.

Eftir að hafa lokið smíðanáminu tók ég sveinspróf og hóf störf við smíðar. Ég hafði alltaf mikinn metnað fyrir því að komast út í eigin rekstur en til þess að geta stundað eigin rekstur þá þarf maður að klára meistaraskóla, sem ég og gerði. Í meistaraskólanum kynntist ég Svani Karli Grjetarssyni sem er einn af eigendum fyrirtækisins ásamt mér og Viggó Einari Hilmarssyni. Við Svanur tókum okkur til og stofnuðum MótX árið 2005, svo gekk Viggó til liðs við okkur árið 2011. Frá árinu 2005- 2011 vorum við mest í því að byggja einbýlishús í Kópavogi en svo þegar Viggó kom inn ákváðum við að færa okkur yfir í stærri og umfangsmeiri verkefni, líkt og byggingu fjölbýlishúsa."

Þungt regluverk hægi á framleiðni

Líkt og áður segir hefur Vignir áratuga reynslu af störfum innan byggingageirans. Hann segir að margar breytingar hafi átt sér stað innan geirans, en að mestu breytingarnar hafi orðið á regluverkinu. Skriffinnska og seinagangur innan stjórnkerfisins dragi úr framleiðni.

„Það má segja að mesta breytingin hafi átt sér stað í reglugerðarumhverfinu - byggingareglugerðin fór sem dæmi úr 80 blaðsíðum yfir í 180 blaðsíður á örfáum árum. Það hefur augljóslega haft mikil áhrif. Regluverkið hefur þyngst til muna og til marks um þetta hefur verið krukkað fimm sinnum í byggingareglugerðinni síðan árið 2012. Ég vonast til þess að byggingareglugerðin sé á meðal þeirra reglugerða sem yfirvöld hyggjast einfalda. Einföldun byggingareglugerðar myndi á endanum lækka verð til neytandans án þess að það bitnaði nokkurn skapaðan hlut á gæðunum.

Það má sem dæmi nefna að byggingatíminn er hvað lengstur í Reykjavík. Íslenskir iðnaðarmenn eru svo sannarlega með þeim duglegustu í Evrópu en það kemur niður á þeim hvað regluverkið og hið opinbera er svifaseint. Þar af leiðandi er framleiðni í íslenskum byggingaiðnaði hæg. Það getur tekið margar vikur eða mánuði að fara yfir einföld atriði sem veldur því að verk tefjast ítrekað. Byggingaframkvæmdirnar sjálfar eru því alls ekki að taka mestan tíma, heldur er tímafrekast að koma framkvæmdunum í gegnum skipulag og samþykki byggingafulltrúa. Framleiðnin hér á landi er ekki nógu góð vegna þess að í dag er það svo að það tekur minnstan tíma að reisa sjálft húsið, því aðdragandinn er orðinn svo langur. Skriffinnskan er orðin svakaleg í samanburði við það hvernig hún var," segir Vignir og bætir við: „Það hafa auðvitað einnig átt sér stað tækninýjungar, en svo sem engar stórkostlegar breytingar hvað það varðar. Þegar ég byrjaði voru varla útlendingar sem störfuðu innan greinarinnar en í dag er stór hluti starfsmannanna af erlendu bergi brotinn.

Eftir hrun hættu verktakar með steypusletturnar á hausnum, eins og ég kalla okkur, að vera mest áberandi í bransanum. Þá fóru þessi félög á vegum sjóða, eins og t.d. Upphaf fasteignafélag, að láta eins og verktakar. Í kjölfarið átti sér stað hálfgert gullgrafaraæði; það hafði ekki verið byggt neitt í nokkur ár og alls konar fólk sem aldrei hafði komið nálægt húsbyggingum sá fyrir sér að koma út í stórgróða af því að byggja. Þá fóru sjóðir og fjárfestar af stað að byggja húsnæði. En í dag virðist hins vegar annað vera að koma á daginn og að þessum aðilum hefur kannski ekki gengið svo vel við að byggja. Mín skoðun er sú að sjóðir eigi ekki að vera að vasast í því að byggja hús heldur eigi verktakar sem eru sérfræðingar í því að sjá um það. Gott dæmi er veitingamaðurinn í IKEA sem ætlaði aldeilis að kenna okkur verktökunum að byggja hús á sem hagkvæmastan hátt fyrir sína starfsmenn. Þetta átti að vera lægsta leigan á landinu. Eftir því sem mér skilst þá fóru allar kostnaðaráætlanir út í vindinn og eftir sitja starfsmenn IKEA með hæstu leiguna í bænum.

Svo í allri þessari umræðu um vöntun á íbúðum sem tönglast hefur verið á fóru verkalýðsfélögin af stað og stofnuðu Bjarg sem á að bjarga þeim lægst settu í þjóðfélaginu um íbúðir. Sömu verkalýðsfélög eru búin að semja um há laun fyrir félagsmenn sína en svo sjá þau kost sinn ekki vænstan í því að kaupa innlenda framleiðslu af þeim fyrirtækjum sem þeirra félagsmenn vinna hjá og leita þess vegna til Austur-Evrópu eftir aðföngum í sínar byggingar. Hræsnin er með ólíkindum. Þá vaknar stór spurning, frá mínum bæjardyrum séð, hvort þessi óhagnaðardrifnu félög eigi að vera að vasast í því að byggja íbúðir? Geta þau ekki keypt íbúðir af verktökum og svo selt þær óhagnaðardrifið áfram? Ég er á því að markaðurinn eigi að leysa þetta og trúi því tæplega að hin ýmsu hagsmunasamtök geti leyst þessi verkefni betur en við verktakar gerum.

Sagan segir okkur líka að rekstur hinna ýmsu byggingasamvinnufélaga hefur verið þyrnum stráð í gegnum tíðina. Íbúðaeignastefnan hefur alltaf verið rík á Íslandi og mun verða. Ég tel að yfirvöld ættu miklu frekar að aðstoða fólk við að eignast sína eigin eign frekar en að stefna því í einhver samfélög."

Nánar er rætt við Vigni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér