Sumir sérfræðingar telja að markaðir leggi of mikla álagningu á skuldatryggingar íslensku bankanna. Mikil umfjöllun hefur verið um álagið í erlendum fjölmiðlum að undanförnu og virðist sem svo margir telji álagið í litlu samhengi við stöðu bankanna.

Fram kemur í orðsendingu fjármálafyrirtækisins TD Securities til fjárfesta í dag að þrátt fyrir að skuldatryggingaálag Kaupþings og Glitnis hafi farið yfir þúsund punkta í síðustu viku þá efist fáir sérfræðingar með þekkingu á málinu um greiðsluhæfi íslenskra banka. Fullyrt er að álagið haldist hátt vegna þess að stöður í skuldatryggingunum séu inn í skuldabréfavafningum og í bókum vogunarsjóðum sem neyðast til þess að vinda ofan eignasafni sínu sökum lánsfjárkreppunnar sem nú ríkir.

Dow Jones-fréttaveitan hefur eftir Peter Attard Montalto, sérfræðingi í nýmarkaðsríkjum hjá Lehman Brothers í London, að skuldatryggingaálagið endurspegla neikvæða sýna fjárfesta gagnvart íslenska hagkerfinu en ekki líkunum á því að einhver geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Jafnframt hefur fréttaveitan eftir Simon Adamson, sérfræðingi hjá CreditSights, að vanvirkar markaðsaðstæður geri það að verkum að orsakasamhengið á milli skuldatryggingaálags og líkunum á gjaldþroti séu merkingarlausar. Hann bendir á að Kaupþing hafi fjármagnað sig á dögunum á kjörum sem eru undir skuldatryggingarálaginu á dögunum og að bankinn hafi nú þegar fjármagnað skuldbindingar ársins – ennfremur tekur hann fram að skuldbindingar Landsbankans á árinu eru „frekar litlar” eða um 749 milljónir evra og að Glitnir þurfi að fjármagna 2,45 milljarða evra.

Hann segir að ekkert réttlæti þá skelfingu sem nú ríkir á markaðnum með skuldatryggingaálög og tekur fram að íslenski seðlabankinn sé meðlimur óformlegs samstarfs norrænna seðlabanka um viðbrögð gagnvart lausafjárþurrð.

Fram kemur í umfjöllun Dow Jones að samkvæmt sérfræðingum Deutsche Bank feli þróun skuldatryggingaálag íslensku bankanna í síðustu viku í sér væntingar um að 50 til 60% líkur á því að íslensku bankarnir farið á höfuðið.