*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 27. maí 2021 13:33

Sneri við dómi í uppgreiðslumáli

Sjö manna Hæstiréttur kvað upp dóm í tveimur málum sem varða ÍL-sjóð. Í öðru var ríkið sýknað en hitt var sent heim í hérað.

Jóhann Óli Eiðsson
Rétturinn var skipaður sjö dómurum í málinu en slíkt er afar fátítt.
Höskuldur Marselíusarson

Uppgreiðslugjald ÍL-sjóðs er ekki ólögmætt. Þetta felst í dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp rétt í þessu. Með því sneri dómurinn við niðurstöðu í héraðsdóms. Niðurstaðan þýðir að um átta milljarðar króna munu ekki lenda á íslenska ríkinu en þess í stað munu lántakendur þurfa að bera þann bagga.

Um tvö mál er var að ræða. Í öðru málinu var ÍL-sjóður sýknaður af kröfum lántaka en í hinu síðara var dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað til lögmætrar efnismeðferðar.

Dómar í héraði voru kveðnir upp um mánaðarmótin nóvember desember á síðasta ári. Niðurstaðan var sú að uppgreiðsluþóknun Íbúðalánasjóðs var dæmd ólögmæt. Afleiðing þess var að ÍL-sjóður, sem nýverið tók við réttindum og skyldum Íbúðalánasjóðs, hefði þurft að endurgreiða 5,2 milljarða króna í þegar greitt uppgreiðslugjald. Því til viðbótar voru um þrír milljarðar útistandandi í mögulegum þóknunum. Áhrifin á sjóðinn, sem nýverið endaði í A-hluta hins opinbera, hefðu því verið umtalsverð.

Ástæða þess að dómur Hæstaréttar liggur fyrir svo skömmu eftir að dómur héraðsdóms var kveðinn upp, það er um hálfu ári síðar, er sú að rétturinn féllst á að leyfi fengist til að áfrýja því beint til Hæstaréttar. Málsmeðferð fyrir Landsrétti var því sleppt. Var það stutt þeim rökum að brýnir hagsmunir lægju að baki því að fá dóm í málinu sem fyrst. Er þetta í fyrsta sinn frá stofnun millidómsstigsins, það er Landsréttar, sem fallist var á slíka heimild.

Í annan stað þá skipuðu sjö dómarar réttarins, það er allir dómarar við réttinn, dóm í málinu. Slíkt er sjaldgæft og háð því skilyrði að málin séu „sérlega mikilvæg“. Þessari heimilt var beitt síðast í september 2017 í máli sem varðaði tvöfalda refsingu og málsmeðferð í skattamáli. Vanalega mynda fimm af sjö dómurum við réttinn dóm í hverju máli fyrir sig.

Dómurinn hefur ekki verið birtur og því ekki unnt að gera grein fyrir forsendum og niðurstöðum dómsins að svo stöddu. Þá liggur ekki fyrir hvort einhverjir dómarar hafi skilað sératkvæði í málunum tveimur.