*

mánudagur, 22. júlí 2019
Innlent 13. júní 2015 13:10

Snjóhengjan bráðnar eftir sjö ára frost

Fámennur hópur kröfuhafa stendur að baki þeim tillögum sem birtar hafa verið um stöðugleikaskilyrði vegna föllnu bankanna.

Ólafur Heiðar Helgason
Frá blaðamannafundi um losun hafta.
Haraldur Guðjónsson

Stöðugleikaskattur, stöðugleikaskilyrði og stöðugleikaframlag eru nýyrði sem dynja á Íslendingum þessa dagana. Þessi hugtök snúa að veigamesta þættinum í aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna afnáms hafta, þeim afarkostum sem slitabúum föllnu bankanna eru settir af stjórnvöldum. Annað hvort þarf sérhvert slitabú að undirgangast sex stöðugleikaskilyrði fyrir lok þessa árs eða greiða stöðugleikaskatt sem nemur 39% af eignum. Álagning stöðugleikaskattsins fer fram 15. apríl á næsta ári samkvæmt áætlun stjórnvalda.

"Þetta eru allmörg skilyrði, sum hver nokkuð flókin," sagði forsætisráðherra um stöðugleikaskilyrðin þegar Viðskiptablaðið ræddi við hann á dögunum, en skilyrðin birtust í kynningu stjórnvalda á aðgerðunum. Slitabúin skulu reiða af hendi beint stöðugleikaframlag til ríkisins, endurfjármagna lán sem ríkið veitti nýju bönkunum og skuldbreyta innlánum sínum í nýju bönkunum í fjármögnun til lengri tíma. Ríkið á að fá hlutdeild í sölutekjum af nýju bönkunum og eignast skuldabréf með svokölluðu fjársópsákvæði. Þá eiga slitabúin að framselja innlendar óvissukröfur til Seðlabankans.

Hlutdeild í söluverði

Hópur kröfuhafa hefur sent stjórnvöldum tillögur sínar að því hvernig uppfylla megi stöðugleikaskilyrðin og hefur framkvæmdahópur um losun hafta lagt blessun sína yfir tillögurnar fyrir sitt leyti. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins eru það þrír vogunarsjóðir, sem eiga fyrst og fremst kröfur í Glitni og Kaupþingi, sem staðið hafa í viðræðum við stjórnvöld um útfærslur skilyrðanna. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að um væri að ræða minni hóp og færri aðila en velt hefur verið upp í umræðunni. Stórir kröfuhafar í gamla Landsbankanum hafi til að mynda aldrei verið hafðir með í ráðum.

Tillögur kröfuhafa að útfærslum á stöðugleikaskilyrðunum snúa margar hverjar að nokkuð flóknum afleiðu- og valréttarviðskiptum sem erfitt er að verðmeta með vissu. Samkvæmt tillögunum fara bein framlög Kaupþings og Glitnis til íslenska ríkisins að miklu leyti eftir söluverði annars vegar Arion banka og hins vegar Íslandsbanka. Hlutdeild ríkisins í söluverði Íslandsbanka fer einnig eftir því hvort bankinn verður seldur til innlends eða erlends aðila. Verði bankinn seldur til erlends aðila, eins og teikn hafa verið á lofti um, fær ríkið 60% af söluandvirðinu í erlendri mynt. Þó er ákveðið hámark á hlutdeild ríkisins, sem miðað við gengi evrunnar í gær nemur um 105 milljörðum króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.