Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,2% í apríl. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga lækka úr 3,9% í 2,9%. Hagstofan birtir aprílmælingu á verðbólgu á mánudaginn eftir viku.

Í Hagsjá Landsbankans segir að bensínverð hafi mest áhrif á spána. Samkvæmt verðkönnun Hagfræðideildarinnar lækkaði bensín um 5% milli mánaða. Þar fer saman lækkandi heimsmarkaðsverð og sterkara gengi krónunnar.

Sterkara gengi krónunnar heldur áfram að hafa áhrif á verðlag í mánuðinum. Þannig hafa mörg bílaumboð lækkað verð á nýjum bílum ásamt því að við teljum að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði muni lækka.

Í spánni gert ráð fyrir að ferðir og flutningar muni lækka í mánuðinum. Flugfargjöld til útlanda eru sá liður sem sveiflast mest og erfiðast hefur reynst að spá fyrir um. Engu að síður er sterkt samband milli þróunar eldsneytisverðs og verðs á flugfargjöldum til útlanda og því er gert ráð fyrir lækkun á liðnum í heild.

Næsta vaxtaákvörðun er 15. maí næstkomandi, þannig að þetta er síðasta mæling á neysluverðsvísitölu fyrir þann fund. Gangi spá Hagfræðideildarinnar eftir segir í Hagsjánni að þá hljóti lækkun stýrivaxta að koma til greina, sérstaklega ef styrking krónunnar gengur ekki til baka.