Willem Buiter, aðalhagfræðingur Citigroup, telur yfir heilmingslíkur vera á því að hagvöxtur í heiminum fari undir 2,5% á næsta ári og að heimsframleiðsla muni fara undir framleiðslugetu. Hann vísar í mjög lítinn vöxt milliríkjaviðskipta á fyrri helmingi þessa árs, áframhaldandi lækkun hrávöruverða og lækkun hlutabréfaverðs um allan heim. Þá segir hann að nafnvextir séu mjög lágir og að allt bendi til þess að hægja sé á vexti í tekjum fyrirtækja víðs vegar um heim. The Economist greinir frá þessu .

Buiter er ef til vill þekktastur fyrir það hér á landi að hafa árið 2008 unnið skýrslu fyrir Landsbankann þar sem dregin var upp dökk mynd af stöðu fjármálakerfisins hér á landi. Hann kynnti uppfærða skýrslu sína fyrir hagfræðingum í Seðlabankanum og í fjármálaráðuneytinu í júlí 2008, þremur mánuðum fyrir fall bankanna. Sú skýrsla var álitin svo neikvæð að Buiter var beðinn um að halda henni leyndri, eins og hann greindi sjálfur frá síðar .

Um stöðu heimshagkerfisins í dag segir Buiter að fjárfesting í Kína hafi verið einstaklega óhagkvæm, sérstaklega síðan 2008. Hlutur fjárfestingar í vergri landsframleiðslu Kína hljóti að fara að minnka um 10 prósent. Spurningin sé sú hvort slík minnkun fjárfestingar geti átt sér stað án þess að minnka heildareftirspurn heimshagkerfisins.